Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður Suðurkjördæmis, hefur nú talað hreint út um það að hún telji að loforð um ráðherrasæti fyrir hana verði efnt í lok mars á þessu ári og að hún taki þá við embætti dómsmálaráðherra. Þetta kom fram í viðtali við hana í dag þar sem hún sat fyrir svörum ásamt Bergþóri Ólasyni, þingmanni Miðflokks. Fram að þessu hefur ekki verið talað svona ákveðið um tímasetningu ráðherraskipta í Sjálfstæðisflokknum vegna loforðs til handa Guðrúnu.
Mikill skjálfti er innan Sjálfstæðisflokksins vegna þessara mögulegu ráðherraskipta. Þegar núverandi vinstri stjórn var mynduð, þann 28. nóvember 2021, vakti það undrun og furðu að Guðrún Hafsteinsdóttir yrði ekki ráðherra. Henni hafði verið lofað ráðherradómi af forystu flokksins ef hún gæfi kost á sér í fyrsta sæti flokksins í Suðurkjördæmi en forystu flokksins var umhugað um að koma í veg fyrir endurkjör Páls Magnússonar. Eftir talsvert hik ákvað Guðrún að taka slaginn með Sjálfstæðisflokknum en tveir aðrir flokkar höfðu átt samtöl við hana um framboð. Loforð um ráðherraembætti mun hafa gert útslagið hjá Guðrúnu. Sjálfstæðismenn í kjördæminu hafa mjög hvatt hana til að sækja ráðherraembætti fast en mikil óánægja hefur verið með að flokkurinn hafi ekki átt ráðherra þar um árabil þó svo Suðurkjördæmið sé eitt allra sterksta vígi flokksins.
Þegar Guðrún var svo svikin um ráðherraembætti við myndun ríkisstjórnarinnar svaraði Bjarni Benediktsson því þannig að hún tæki sæti í ríkisstjórn eftir 18 mánuði í stað Jóns Gunnarssonar. Þessir átján mánuðir verða liðnir þann 28. mai á vori komanda. Nú velur Guðrún að skilja loforð formannsins þannig að tíminn eigi að teljast frá kosningunum sem fóru fram þann 25. september 2021. Vitað er að Jón Gunnarsson skilur það alls ekki þannig. Reyndar er vitað að hann og stuðningsmenn hans eru fullkomlega ósáttir við að hann eigi að víkja úr ríkisstjórninni fyrir Guðrúnu. Bent er á að Jón er að fást við mjög vandmeðfarin útlendingamál, sem ekki tókst að ljúka við í þinginu fyrir jól, sjálfstæðismönnum til mikils ama, vegna andstöðu Vinstri grænna sem komust upp með að stöðva framgöngu málsins. Jón Gunnarsson hefur verið mjög öflugur í ráðherraembætti allt kjörtímabilið og sá ráðherra sem mestu hefur komið í verk, ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Stuðningsmenn Jóns sætta sig ekki við að hann víki í lok mai á þessu ári.
Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, er vandi á höndum. Það yrði þungt fyrir hann að víkja Jóni Gunnarssyni úr stjórninni, en Jón hefur verið dyggasti stuðningsmaður hans í kjördæminu þeirra um árabil. Hann á heldur ekki gott með að svíkja margítrekað loforð til Guðrúnar Hafsteinsdóttur – ekki einungis hennar sjálfrar vegna, heldur vegna flokksmanna í kjördæminu sem krefjast þess beinlínis að fá oddvita sinn inn í ríkisstjórn.
Margir spyrja hvers vegna Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verði ekki látin víkja fyrir Guðrúnu næsta vor. Áslaug er iðnaðarráðherra og einnig með nýsköpun og háskólamál á sinni könnu. Hún hefur enga reynslu af iðnaði eða umræddum málaflokkum en Guðrún Hafsteinsdóttir hefur starfað í iðnaði í aldarfjórðung, verið einn af eigendum iðnfyrirtækis og stjórnandi þar, auk þess að hafa gegnt formennsku í Samtökum iðnaðarins, öflugustu atvinnurekendasamtökum landsins, í 6 ár og átt jafnframt sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, og verið formaður í Lífeyrissjóði verslunarmanna og Landssamtökum lífeyrissjóða. Þá hefur hún einnig átt sæti í háskólaráði Háskólans í Reylkjavík um árabil. Það er vitanlega fásinna að nýta ekki reynslu og þekkingu Guðrúnar á vettvangi iðnaðar- og háskólamála innan ríkisstjórnarinnar. Vitanlega ætti hún að taka við stöðu Áslaugar Örnu.
Lengi hefur verið orðrómur um að Bjarni Benediktsson hygðist láta staðar numið á vettvangi stjórnmála. Enginn hefur gegnt formennsku í Sjálfstæðisflokknum lengur en hann, að Ólafi Thors einum undanskildum. Bjarni fékk mótframboð á landsfundi flokksins síðast liðið haust en hélt þó velli. Varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, var einróma endurkjörin á þeim landsfundi og er í raun og veru alveg tilbúin að taka við formennsku í flokknum, fyrst kvenna í hundrað ára sögu hans. Margir gruna Bjarna um að skipuleggja brottför sína vel og á sínum eigin forsendum. Bergþór Ólason skaut því að í fyrrnefndu viðtali að hann hefði vonast eftir að Guðrún tæki við embætti fjármálaráðherra. Bergþór er afar vel tengdur innan Sjálfstæðisflokksins, bæði nú og fyrr þegar hann starfaði í forystu flokksins. Ef til vill veit hann meira en margir um ráðagerðir æðstu manna flokksins!
Það skyldi þó aldrei vera að lausnin fælist í því að Bjarni léti af ráðherraembætti, hætti í stjórnnmálum, og Guðrún Hafsteinsdóttir tæki við embætti fjármálaráðherra. Hún gæti sinnt því með sóma og yrði ekki lakari fjármálaráðherra en sumir þeirra sem hafa gegnt því embætti í seinni tíð, eins og til dæmis Oddný Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon ogKatrín Júlíusdóttir. Raunar bendir ferill hennar til að hún yrði mun betri fjármálaráðherra en sá sem nú vermir þann stól.
- Ólafur Arnarson.