Ráðherrar sem eru að hverfa úr ríkisstjórn eftir nokkra daga leyfa sér að skipa vini sína og vandamenn í stjórnir lykilstofnana rétt um leið og þeir pakka saman í ráðuneytum sínum og kveðja ríkisstjórnina, flestir fyrir fullt og allt.
Mikla athygli hefur vakið að Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, dreif sig í það verk fyrir nokkrum dögum að skipa aðstoðarmann sinn, sem er mágkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í stjórn Matís. Einnig skipaði hann í stjórnina Viggó Jónsson sem er aðalfulltrúi Framsóknar í sveitarstjórn Skagafjarðar. Til þess að koma þessum gæðingum Framsóknar að í þessari mikilvægu stjórn þurfti að víkja tveimur mönnum úr stjórn Matís. Þeim var tilkynnt það kvöldið fyrir aðalfund. Annar hinna brotreknu er Friðrik Friðriksson, eiginmaður Elínar Hirst fráfarandi þingmanns.
Fréttablaðið skýrði frá þessu og lét þess jafnframt getið að rekstur Matís hafi gengið mjög vel. Ekki þurfti því að skipta um stjórn í skyndi vegna lélegrar stöðu fyrirtækisins. Nei, þarna var einungis á ferð grímulaus klíkuskapur stjórnmálamanns sem er í þann veginn að missa völdin. Þetta hefur lengi einkennt fjórflokkinn og er meðal þess sem kjósendur eiga erfitt með að þola.
En Gunnar Bragi er ekki eini ráðherrann sem notar síðustu dagana til að koma sínu fólki fyrir. Nýlega var skýrt frá því að Lilja Alfreðsdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, hafi skipað í stjórn Íslandsstofu til þriggja ára. Atvinnulífið velur 4 stjórnarmenn en ráðherrar samtals þrjá. Af hálfu atvinnulífsins eiga sæti í stjórn Íslandsstofu aðilar sem allir hafa víðtæka reynslu af alþjóðaviðskiptum og útflutningsstarfsemi. Það eru þau Sigsteinn Grétarsson sem er formaður, Anna Guðmundsdóttir, Vilborg Einarsdóttir og Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair. Mikill einhugur er um val á þeim.
Sama verður ekki sagt um skipan þeirra sem ráðherrar völdu. Lilja Alfreðsdóttir skipaði aðstoðarmann sinn, Hrannar Pétursson. Sú ráðstöfun þykir í besta falli kjánaleg. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fráfarandi iðnaðarráðherra, valdi vinkonu sína, Ingu Birnu Ragnarsdóttur, sem hefur enga reynslu af útflutningsstarfsemi eða alþjóðaviðskiptum. Loks valdi Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tengdaföður Bjarna Benediktssonar, Baldvin Jónsson, til að sitja í stjórn Íslandsstofu fyrir hönd menntamálaráðuneytisins. Sú ráðstöfun er óskiljanleg í ljósi þess að hann hefur aldrei komið nálægt verkefnum á sviði menntamála. Þarna er fráfarandi menntamálaráðherra einungis að sinna verki fyrir formann sinn, að því er viðrist.
Dagfara finnst að klíkuskapur og frændhyggli einkenni verk þessa fólks alveg fram á síðustu daga valdaferilsins.
Skipað er í stjórn Íslandsstofu til þriggja ára. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort ný ríkisstjórn lætur taka upp skipan fulltrúa ríkisins í þessa stjórn eftir kosningar. Það væri eðlilegt í ljósi þess hvernig hefur verið staðið að málum.