Skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar sem birt er á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem Vinstri grænir eru stærstir segir okkur fyrst og fremst eitt:
Katrín Jakobsdóttir mun mynda þriggja flokka vinstri stjórn ef niðurstaða kosninganna verður í samræmi við þessa könnun. Samkvæmt henni fengju VG 30% og 22 þingmenn. Auk þess næði Flokkur fólksins 9% og fengi 5 þingmenn. Þannig væru sósíalistar með um 40% fylgi sem væri ótvíræð krafa um hreina vinstri stjórn.
Hins vegar er ólíklegt að nokkur flokkur vildi vinna með Flokki fólksins í ríkisstjórn.
Þess vegna er lang líklegast að VG myndaði vinstri stjórn með Framsókn og Samfylkingunni sem hefði samtals 34 þingmenn á bak við sig; VG 22, Framsókn 7 og Samfylkingin 5.
Ríkisstjórn þessara þriggja flokka gæti litið svona út:
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir innanríkisráðherra (með bæði dómsmál og samgöngumál), Lilja Rafney Magnúsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ari Trausti Guðmundsson umhverfisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson iðnaðar- og ferðamálaráðherra, Þórunn Egilsdóttir heilbrigðisráðherra, Logi Einarsson menntamálaráðherra og Oddný Harðardóttir félagsmála- og húsnæðisráðherra.
Sex konur og fjórir karlar skipuðu þessa ríkisstjórn. Þar af væru fjórir sem hefðu ekki gegnt embætti ráðherra áður, þau Lilja Rafney, Ari Trausti, Þórunn og Logi.
Rtá.