Ráðherra á að opinbera forsendubreytinguna

Ég hygg að sú stund muni ekki gleymast nokkrum þeim sem stóð á hafnarbakkanum í Reykjavík síðasta vetrardag vorið1971 þegar Íslendingar endurheimtu Flateyjarbók og Konungsbók-Eddukvæða. Þar endurspeglaði Jóhann Hafstein forsætisráðherra sterka sjálfstæðisvitund fólksins í landinumeð kraftmikilli ræðu. Og svo voru allir þeir sem fylgdust með þessum stóra atburði í fyrstu beinu útsendingu í íslensku sjónvarpi.

Endurheimt handritanna byggðist á samningum við Dani. Þeir tóku langan tíma og hluti handritasafnsins varð samkvæmt þeim eftir í Danmörku. Nú hefur Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hafið undirbúning að viðræðum við Dani um að fá heim þau handrit sem þeir geyma enn. Og ríkisstjórnin hefur samþykkt þau áform. Það er fagnaðarefni. 

Í lokasamningunum féllumst við á að gera ekki frekara tilkall til handrita í Danmörku. Engin lagarök standa því til kröfugerðar af Íslands hálfu. Við eigum ekki heimtingu á neinu. Ísland þarf því að sýna fram á verulega breyttar forsendur. 

Báðar þjóðir eru skuldbundnar til að varðveita handritin af kostgæfni og efla rannsóknir á þeim. 

Krafan um endurheimt handritanna var eins konar framhald sjálfstæðisbaráttunnar. Þjóðin hafði ríkan skilning á gildi þeirra í því samhengi. Nú blasa handritin fremur við frá hreinu menningarlegu sjónarhorni og jafnvel í alþjóðlegri vídd. Vonandi veikir það ekki tilfinningaleg tengsl við þau.

Um þessar mundir er loks verið að leggja grunninn að Húsi íslenskunnar í þekktri holu á Melunum. Það verður vönduð og glæsileg umgjörð um handritin og þá metnaðarfullu fræðaiðkun sem fram fer í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og í Háskólanum.

Eftir hrun var fjárhagslega þrengt að fræðastarfinu, sem verður sjálf sálin í múrverkinu sem rís upp úr holunni. Úr því hefur ekki verið bætt nema að hluta. Hermt er að áhugi Dana á að kosta fræðastörf á þessu sviði hafa dofnað. Það er tilefni endurupptöku handritasamninganna. 

Tilboð um að taka við þeim handritum sem enn liggja í Kaupmannahöfn kostar peninga. Menntamálaráðherra hefur enn sem komið er haldið þeim hluta málsins leyndum. En ganga verður út frá því að hún hafi einnig gert tillögu til ríkisstjórnarinnar í þeim efnum og á hana hafi verið fallist. 

Mikilvægt er að sú hlið málsins hafi verið hugsuð til enda. Danir mega ekki finna holan hljóm í tilboðinu að þessu leyti.Þeir verða að sjá alvöru þess strax í upphafi. 

Eina forsendubreytingin sem réttlætir að Ísland opni umræður um þetta mál liggur í því að þegar hafi verið tekin ákvörðun um að leggja fram til muna meiri fjármuni en Danir hafa áhuga á að gera í þessum tilgangi. Ríkisstjórnin hefur rétt fyrir sér í því að þessir peningar eru til. Hún þarf bara að sýna Dönum það á blaði, svart á hvítu. 

Samráðherrarnir geta einfaldlega ekki sent menntamálaráðherra þessara erinda til Kaupmannahafnar án þess að hafa í farteskinu afdráttarlausa skuldbindingu og útfærð áform um stóraukin framlög til handritarannsókna og sagnfræðirannsókna tengdum handritunum. Enginn vill að þetta verði gönuhlaup. Í upphafi skyldi endirinn skoða. Ráðherra á því að gera þessa hlið á samþykkt ríkisstjórnarinnar opinbera án frekari tafa.