Það er afleitt að sitja uppi með ráðamenn sem hafa bara tengsl við valdameiri hagsmunahafa í samfélaginu en sáralitla tilfinningu gagnvart viðhorfum hins almenna borgara, sjálfa grasrót hvers samfélags.
Ég er ekki í hópi þeirra sem finna verkum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar allt til foráttu. Þvert á móti tel ég að stjórnin hafi að ýmsu leyti staðið sig betur en fylgiskannanir gefa til kynna. Hitt virðist þó óumdeilt í hópi almennra borgara, sem hvorki hafa klíku- né hagsmunatengsl af ákvörðunum gömlu valdaflokkanna sem nú ráða för, að oddvitar flokkanna séu sumpart firrtir eigin samfélagsraunveruleika í veigamiklum málum.
Mýmörg dæmi mætti nefna um þetta en kannski ber ekkert mál eins sterkan keim af firringu foringja vorra og áætlunin að selja stóran hlut í Landsbankanum. Á öðrum tímapunkti, ef sagan væri önnur, ef Arion-málið hefði ekki komið upp, ef Borgunarmálið hefði ekki komið upp, ef vildavinir forsætisráðherra gætu ekki átt von á stórfelldum ríkisfyrirgreiðslum með sms-um, ef traust ríkti milli borgaranna og réttkjörinna stjórnvalda um að færsla ábatasams ríkisrekstrar til einkaframtaksins yrði óspillt, gæti verið ágætis hugmynd að selja Landsbankann. En ekki núna. Ekki í ljósi hrunsins og þess sem gerðist árin fyrir kollsteypuna. Ekki í ljósi umdeildra gjörninga sem báðir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna bera jafna ábyrgð á – þótt annar sé flinkari í framkomu og samskiptum en hinn og þótt annar skrifi meira um eigin bekkpressumet á facebook meðan hinn stelst í súkkulaðitertur.
Skömmu eftir hrun öskruðum við okkur hás vegna þeirrar staðreyndar að stjórnvöld höfðu komið því þannig fyrir að gróðinn skyldi einkavæddur en tapið þjóðnýtt. Þegar við almennir skattgreiðendur máttum að loknu hruni þola hvert svipuhöggið eftir annað vegna græðgi bankanna reiknuðu fæstir með að sami nýfrjálshyggjusöngurinn og var fyrir hrun yrði aftur vinsælasta lagið á þjóðarleikskólanum örfáum árum síðar, en sú er samt raunin. Um allan heim er nú talað fyrir sterkara ríkisvaldi en verið hefur til að koma böndum á vaxandi ójöfnuð og ósjálfbæra auðhyggju þar sem örfáir mógúlar eru á góðri leið með að sölsa til sín allar auðlindir veraldar á kostnað stórfelldra almannahagsmuna.
Engin einkavæðing án trausts, segir Guðlaugur Þór þingmaður. Hann hefði betur vaknað fyrr af eigin blundi. Betra seint en aldrei.
„Vandinn er að það er ekki hægt að einkavæða fjármálastofnanir ef fólk hefur ekki sannfæringu fyrir því að þetta sé opið og gagnsætt og farið eftir skýrum verklagsreglum. Það er engin einkavæðing án trausts,“ segir Guðlaugur Þór.
Nú er bara að vona að rödd hans heyrist á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina sem og þegar flokksmenn hans ræða sölu á Landsbankanum eða Landsvirkjun sem skoðanakannanir hafa mælt að mæti mikilli mótstöðu meðal borgaranna.
Einmitt vegna þess að það ríkir ekkert traust. Það gagnast ekki flugfélagi sem missir vél vegna glæpsamlegrar græðgi eigenda félagsins að auglýsa frábær fargjöld og ábata farþega af viðskiptum á sama tíma og heimsbyggðin horfir á farþega félagsins brenna í beinni.