Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tekur óvænta stefnu

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir hefur sett óvænta spennu í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir að hún bauð sig fram til að leiða lista flokksins í komandi kosningum.

Um tíma var haldið að enginn nema Hildur Björnsdóttir sæktist eftir efsta sæti listans. En annað kom á daginn. Ragnhildur er fyrsti varaborgarfulltrúi flokksins og hefur kynnst borgarmálunum vel á því kjörtímabili sem er að ljúka.

Hún er komin á fulla ferð í prófkjörsbaráttuna og dregur hvergi af sér. Hún kann til verka enda var hún kosningastjóri hjá Guðlaugi Þór Þórðarsyni í prófkjöri vorið 2021 og þótti standa sig ákaflega vel. Guðlaugur bar þar sigurorð af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og gjörvöllu flokkseigendafélagi Sjálfstæðisflokksins sem stóð allt gegn Guðlaugi Þór. Gilti það jafnt um formann, varaformann, ritara, formann þingflokks og ýmsa aðra. En allt kom fyrir ekki. Guðlaugur Þór sigraði.

Þá er alveg ljóst að Ragnhildur Alda mun njóta góðs af ferli foreldra sinna innan Sjálfstæðisflokksins. Faðir hennar er Vilhjálmur Egilsson sem var þingmaður flokksins í tólf ár og naut mikillar virðingar innan flokksins fyrir dugnað og fagmennsku. Móðir hennar er Pála Ófeigsdóttir sem hefur verið virk í ýmsu starfi innan flokksins. Fréttir herma að Vilhjálmur hafi haft símasamband við um hundrað sjálfstæðismenn á dag að undanförnu og leitað eftir stuðningi við dóttur sína. Viðtökur munu hafa verið ákaflega góðar.

Fram hefur komið að Hildur Björnsdóttir sækist eftir því að algerlega verði skipt um frambjóðendur í efstu sætum listans. Hún vill ekki að stuðningsmenn hennar kjósi neina af núverandi borgarfulltrúum fyrir utan hana sjálfa. Þannig eiga Marta, Valgerður, Björn og Egill ekki upp á pallborðið hjá Hildi. Þetta þykir ekki mjög klókt hjá henni en næsta víst má telja að einhver þeirra nái einhverju af sex efstu sætunum í prófkjörinu en í nýlegri skoðanakönnun Maskínu fyrir Stöð 2 mældist Sjálfstæðisflokkurinn með sex borgarfulltrúa og tapaði tveimur frá kosningunum 2018.

Nú hafa 16 manns boðið sig fram í prófkjöri flokksins. Þeim mun væntanlega heldur fjölga. Ekki er búist við neinum sem getur haft áhrif á röðun í efstu sætin nema takist að fá Frosta Logason, fyrrum útvarpsmann á Harmageddon, til að gefa kost á sér. Mikið hefur verið reynt en hann hefur verið tvístígandi. Þó er frekar gert ráð fyrir því að hann slái til.

Því er spáð hér að Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir nái fyrsta sætinu í prófkjöri flokksins. Hildur Björnsdóttir verður í öðru sæti, Frosti Logason gæti komið inn í þriðja sæti ef hann gefur kost á sér. Þá bentir margt til þess að Birna Hafstein fái góðan stuðning og lendi í fjórða sæti og Björn Gíslason í hinu fimmta. Þá á einungis eftir að nefna síðasta sætið sem flokkurinn fær ef marka má könnun Maskínu, sjötta sætið. Það kæmi þá í hlut Mörtu Guðjónsdóttur.

Þeir sem gætu komið þarna á eftir eru Valgerður Sigurðardóttir, Helga Margrét Marzellíusardóttir, Egill Þór Jónsson og Kjartan Magnússon.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 30.8 prósent atkvæða í kosningunum 2018. Það var næstlakasti árangur flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Einungis var um verri niðurstöðu að ræða í kosningunum vorið 2014. Þá var fylgið 25.5 prósent. Samkvæmt mælingu Maskínu sem Stöð 2 birti þann 11. febrúar síðastliðinn var fylgi flokksins 21.8 prósent.

Á næstu vikum skýrist í hvað stefnir hjá þessum fyrrum forystuflokki í Reykjavíkurborg.

- Ólafur Arnarson