Það kann vel að fara svo að Ólafur Ragnar Grímsson muni ljúka sínum forsetaferli fyrir Ísland 77 ára gamall.
Reyndar væri óvarlegt að útiloka að hann verði ekki enn eldri í embætti. Kannski lætur hann ekki bera sig út frá Bessastöðum fyrr en 81 árs að aldri. 85 ára? Jafnvel 89 ára gamall? Af hverju að setja yfirhöfuð einhver spámörk? Enginn skyldi útloka þann möguleika að ÓRG fari fyrst frá Bessastöðum 93ja ára gamall. Kannski situr hann til 97 ára aldurs. Ef heilsan leyfir verður hann kannski fyrsti þjóðhöfðinginn sem situr á forsetastóli meira en hundað ára gamall.
Sagan sýnir nefnilega að Ólafur Ragnar Grímsson hættir alltaf við að hætta.
Sagan sýnir að fólk úti á landi ber uppi fylgið við Ólaf og þá frekar karlar en konur. Það þyrfti meiriháttar byggðaraskanir til að þetta breyttist. Eins og reglurnar eru núna verður sá forseti sem fær flest atkvæði. Ekki er spurt um vilja meirihluta þjóðarinnar. Dæmi um að forseti sé kjörinn af tæpum þriðjungi þjóðar, að það dugi. Þeir sem feta skóla lífsins og búa úti á landi verða eflaust næstu 20 árin a.m.k. þriðjungur þjóðar. Það gæti dugað.
Hitt er vitaskuld kaldhæðnislegt fyrir fræðimanninn og prófessorinn ÓRG, þann sem átti sér þann draum að verða heimsfyrirlesari, jafnvel aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að mestur partur fræði- og menntamanna hér á landi hafi snúið baki við doktornum ÓRG og leyfi sér jafnvel opinberlega að tala um ákvarðanir hans í háði eins og mörg dæmi eru um undanfarið.
Kannski lítur samfélag langmenntaðra einkum á Ólaf sem spunadoktor nú orðið. Spunadoktor sem kann betur en aðrir að vefja kjósendum úti á landi um fingur sér. Eins fjarri svignandi konungsborðum á Bessastöðum hinir sömu íbúar landsbyggðanna standa þó flestir sjálfir.
Þeir sem hafa minnstan hag af því sjálfir framlengja oft valdatíð einræðisherra. Það er vegna þess að þeir hinir sömu vita ekki betur. Það er hægt að blása í þá eins og flautu og ráða hvaða tónn kemur út úr þeim. Á meðan Ólafur Ragnar kann að blása og á meðan kurteisir íbúar landsbyggðanna mæta til tónleikanna prúðir verður Ólafur Ragnar prófessorinn sem pöpullinn styður.
Góða helgi!
Björn Þorláksson