Prófessor: fólk ofmeti sigurlíkur órg

Gauti Eggertsson prófessor í hagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum spyr hvort Ólafur Ragnar sé sterkur frambjóðandi í pistli sem vakið hefur mikla athygli. Þar dregur Gauti í efa að t.d. úttekt DV á forsetakosningum nýverið þar sem segi nánast að ekki sé peninganna virði að leggja til atlögu við ÓRG, hann muni vinna forsetakosningar án fyrirhafnar.


\"Kosningarnar 2012 eru einu kosningar ÓRG eftir hrun, en staða hans skaddaðist auðvitað töluvert í hruninu. Hann var helsti hvatamaður útrásarinnar eins og rakið er í bók Guðjónar Friðrikssonar sem gefin var út með blessun forsetans rétt fyrir hrun, þegar flestir töldu að saga íslensku bankana væri stórkostleg sigursaga: Saga af forseta: Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, útrás, athafnir, átök og einkamál. Í þeirri bók lýsir Sigurður Einarsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, því yfir að Ólafur sé „andlegur leiðtogi íslensku útrásarinnar“. Í siðferðiskafla Rannsóknarskýrslu Alþingis má svo lesa yfirlit yfir að líklega hefur enginn annar þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum ferðast jafn mikið með einkaþotum auðmanna og ÓRG fyrir hrun. Og líklega á það sama við um einkaboð og veislur. Það virðist óumdeilt að hann var þeirra helsta hjálparhella og innsti koppur í búri í útrásinni, sá það beinlínis sem sitt hlutverk greiða götu bankanna erlendis eins og glögglega kom fram í bók Guðjóns Friðrikssonar,\" skrifar Gauti, mest lesni bloggari landsins.


\"Í síðustu kosningum var forsetinn sumsé aðhald við óvinsæl stjórnvöld. Hann var því kosinn til að halda ríkisstjórninni við efnið. Nú er hann hækja og stuðningsmaður óvinsællar ríkisstjórnar sem á beinar rætur að rekja til stjórnarhátta fyrir hrun. Það vekur líka athygli að hann hefur aldrei veitt þessum óvinsæla ríkisstjórnarmeirihluta neitt aðhald, þó að full ástæða hafi verið til þess. Eitt dæmi er þegar forsetinn fékk afhent 35 þúsund undirskriftir gegn lögum er kváðu á um að aflétta veiðgjöldum af kvótaeigendum. Þann risastóra skattaaflátt, sem hljóp á milljörðum, skrifaði hann upp á án mikillar umhugsunar þrátt fyrir augljósa gjá milli þings og þjóðar. Það kæmi mér ekki á óvart ef það komi fram á næstu vikum að stór hluti þessa skatta-afsláttar endaði á aflandseyjum líkt og Tortóla, frekar en að hafa safnast í vasa almennings í gegnum veiðigjöld. Slíkt gæti verið sprengiefni í kosningabaráttu. Hitt dæmið er auðvitað þegar hann kom í veg fyrir að krafa almennings um þingrof og Aþingiskosningar gengi eftir fyrir nokkrum vikum eftir stærstu mótmæli Íslandssögunnar. Þess í stað kastaði hann nýrri líflínu til hins óvinsæla ríkisstjórnarmeirihluta og tilkynnti stuttu síðar að hann hefði hætt við að hætta við — annað skiptið í röð — með það að meginmarkmiði, að því er virðist, að tryggja óbreytt ástand.\"


Vísar Gauti svo til kosninganna 2012.
\"Hvað varðar misminnið, var ég að velta því fyrir mér hvort fólk hafi einfaldlega gleymt því hversu tæpt ÓRG stóð í síðustu kosningum þrátt fyrir þær kjöraðstæður sem raktar eru hér að ofan, þegar hann var aðhald við óskaplega óvinsæla ríkisstjórn?... Stuttu fyrir kosningar, nánar tiltekið 13 maí 2012 á mæðradaginn, ákvað Ólafur Ragnar að hefja formlega kosningabaráttu.\"
\"Hvernig leit staðan út á þeim tíma? Á þeim tímapunkti bentu flestar skoðanakannanir til þess að Þóra Arnórsdóttir myndi velta honum úr sessi. Til dæmis benti skoðanakönnun Capacent Gallup til þess 4. maí, þar sem 82 prósent höfðu tekið afstöðu, að Þóra Arnórsdóttir fengi 46.4 prósent á meðan 37.2 prósent styddu Ólaf... En einmitt þennan dag, á mæðradaginn 13. maí, byrjar ÓRG sína kosningabaráttu opinberlega. Hann byrjar hana með því að “hjóla í Þóru” eins og Eyjan orðaði það hér. Sagði að þjóðin þyrfti ekki “puntudúkku” á forsetastól, kallaði Þóru dæmigerðan “2007 frambjóðanda”, osfrv ofrv. Ég minnist ekki orðbragðs af þessu tagi áður í forsetakosningum.
Tímasetning upphafs kosningabaráttu ÓRG, og stórskotahríðin á Þóru, var athygliverð. Aðeins nokkrum dögum áður en orrahríðin hófst, var Þóra nefnilega lögst inná spítala til þess að eignast barn. Barnið kom svo ekki í heiminn fyrr en 18 maí... Sjálf byrjaði Þóra svo ekki kosningabáráttuna sína aftur fyrr en 28 maí, meira en tveimur vikum eftir að ÓRG hóf stórskotaárásina. Í tvær vikur var ÓRG því í ötulli kosningabaráttu en vart heyrðist neitt frá helsta mótframbjóðandanum sem var rúmfastur.
Gauti bendir á að fyrsta skoðanakönnunin sem gerð var eftir að Þóra var stiginn úr sjúkrarúmi þann 1. júni 2012 hafi sýnt að meðan Þóra tók sér tveggja vikna barneignarleyfi hafði staðan algerlega snúist við. \"Þegar Þóra mætti aftur til leiks, eftir að hafa verið uppnefnd puntudúkka og ópólitískur 2007 frambjóðandi, var Ólafur Ragnar kominn með fylgi uppá 56,4% og Þóra Arnórsdóttur með 34,1%. Staðan var svo svipuð þegar upp var staðið í kosningum.
Hvernig hefði kosningabaráttan farið ef að Þóra hefði ekki verið barnshafandi en svarað ÓRG fullum hálsi? Staðreyndin er auðvitað sú, að Þóra er alls engin ópólitísk puntudúkka frá 2007, heldur barnabarn Hannibals Valdimarssonar, hápólitísk og fluggáfuð með framhaldsgráður frá Yale og Johns Hopkins háskólum, altalandi 6 tungumál reipirennandi (eða hvað var það nú aftur?) osfrv osfrv.\"


Gauti segist stundum velta fyrir sér af hverju stuðningsmenn Þóru tóku ekki hraustlegra á móti þessum árásum. \"Ein ástæðan kann að vera sú að þeir vanmátu ÓRG, enda Þóra með töluvert forskot á þessum tímapunkti og margir virtust búnir að gera upp hug sinn. Ég man sjálfur að ég hélt að fylgið myndi hrynja af ÓRG þegar hann hóf árásirnar á Þóru. Það mat reyndist algerlega rangt. Fremur en að ganga fram af kjósendum náði kosningabárátta ÓRG nú miklu flugi, meðan helsti mótframbjóðandinn var bókstaflega rúmfastur og svaraði litlu. Hin ástæðan fyrir því að ekki var tekið hraustlegar á móti var ef til vill ekki vanmat á ÓRG heldur sú að fólkið í kringum Þóru – ekki síst hún sjálf – var einfaldlega of upptekið af því að vera að eignast nýtt barn!\"
Hann heldur áfram: \"Ef ég horfi yfir sviðið núna er því grundvallarmunur á því hvernig væntanleg kosningabarátta fer fram á næstu mánuðum. Í fyrsta lagi, getur ÓRG ekki slegið sér upp á kostnað óvinsællar ríkisstjórnar. Þvert á móti er hann fulltrúi hennar og hún virðist jafnvel enn óvinsælli en sú sem ÓRG notaði til að lyfta sér upp síðast. Í öðru lagi, sýnist mér ólíklegt að þeir frambjóðendur sem helst eru líklegir til að velgja honum undir uggum vanmeti hann eða þurfi að draga sig í hlé þegar baráttan hitnar upp. Ég held að þeim sé það líka flestum ljóst nú, fjórum árum seinna, að ef ÓRG telur sér ógnað mun hann leggjast í beinar persónulegar árásir á þá sem hann telur andstæðinga sína. Ólíkt 2012, verða þeir því ef til vill viðbúnir að svara fullum hálsi, enda af nógu af taka eftir langan og viðburðarríkan stjórnmálaferil ÓRG.
Þegar maður rýnir í skoðanakannanir frá 2012 er líka eftirfarandi ljóst: Stuðningur við ÓRG er afar fljótandi. Með öðrum orðum kunna veður að skipast fljótt í lofti í þessum kosningum eins og síðast. Stuðningurinn við ÓRG er reikull og skoðanakannanir næstu vikna kunna því að vera misvísandi. Ég man varla eftir annarri eins sveiflu í könnunum í íslenskri pólitík og vikurnar tvær þegar Þóra fór í barnseignaleyfi og ÓRG hóf árásirnar. Í því felast augljós tækifæri fyrir mótframbjóðendur ÓRG því stuðningsmenn hans virðast ekki sérstaklega fastir í hendi. En líka augljósar hættur. Ef ÓRG telur sér ógnað mun hann láta öllum illum látum og kann þannig að snúa við tapaðri stöðu líkt og síðast.
Ég held því að forsetakosningarnar geti því verið ansi skrautlegar að þessu sinni og stend mig að því að skoða netið oftar en áður til að lesa fréttir að heiman. Ég vona þó að þær verði þó ekki jafn “áhugaverðar” og hérna í Bandaríkjunum í dag….\"