Við lifum enn tíma þar sem fólk fær greidd laun af skattfé fyrir að trúa á stokka og steina.
Sumt af þessu fólki hefur nú sent hvatningu til almennings um að sumir fjölmiðlar séu verri en aðrir. Á sumt megi horfa en ekki annað. Það kann að verða til þess að fjölmiðlamenn sem hafa látið eigin rökhyggju um að tækla álitamein samfélagsins missi vinnuna. Svakaleg aðför, myndu sumir segja. Svakaleg vegna þess að þótti þessara presta er nátengdur hagsmunum þeirra. Því færri sem trúa á stokka og steina, því umdeildara verður það lifibrauð presta sem almenningur þarf að greiða úr eigin vasa. Þetta getur brotist út með því að önnur stétt sem hefur atvinnu af spíritisma njóti sérstakrar verndar sumra presta.
Þegar prestar taka sig saman og hvetja almenning til að hætta að skipta við ákveðinn fjölmiðil vegna þess að skoðun þeirra, framkoma eða efnistök hafi hneykslað hina sömu presta má vel velta fyrir sér hvort um sé að ræða tilhneigingu sem kölluð hefur verið Berufsverbot.
Förum aðeins yfir sviðið:
Róttækur fjölmiðlamaður sem hefur haft það að leiðarljósi í störfum sínum að hjóla í vitleysu og tækla mein leggur saman tvo plús tvo út frá eigin rökviti. Hinu sama rökviti og við sem hlustum á Harmageddon höfum oft hrifist af. Ekki höfum við síður hrifist af hugrekki þeirra félaga sem þar starfa. Það er nóg af hinu, hugleysinu.
Þessi fjölmiðlamaður, Frosti Logason, hefur sumsé í samstarfi við félaga sinn á Harmageddon, Mána Pétursson, velgt margri vitleysunni undir uggum. Frosti hefur ítrekað sett spurningarmerki við opinbera ráðstöfun fjármuna eins og fjölmiðlamenn eiga að gera. Hann hefur gagnrýnt þjóðkirkjuna fyrir ýmsar sakir og er ekki einn um það. Mörgum rökföstum huganum svíður sem dæmi ef enn á að stórauka framlög til þjóðkirkju sem er beintengd ríkisgreiðslum. Frétt Hringbrautar á dögunum um að fækkun í þjóðkirkjunni mætti tengja aukinni áherslu á veraldarvæðingu, vísindahyggju og rökhyggju er dæmi um kostulegheitin. Flestir myndu telja það til bóta að þjóðin er orðin skynsamari en áður með aukinni menntun og upplýsingu, þarf ekki hjátrú og hindurvitni. En Kirkjuþingi finnst þetta ekki gott og vill 150 millur til að veiða fleiri sálir inn í þjóðkirkjusöfnuðinn. Absúrd viðhorf, segir Siðmennt. Einnig hefur vakið athygli að prestar rétlæti eigin ríkislaun með því að þeir séu svo góðir sálfræðingar. Ættu þeir þá kannski að læra til sálfræði ef það er málið?
Aftur að Frosta. Hann stundaði samfélagshagnýta rannsóknarblaðamennsku þegar hann fór á „miðilsfund“ og upplýsti að þeim fundi loknum að hann hefði orðið vitni að svikum og prettum. Eins og háttar til með réttlætiskenndina og störf hans segir hann frá því, það er jú vinnan hans að veita aðhald. Hann samþykkir svo að koma í viðtal í Ísland í dag með „miðlinum“ og rakkar hann niður. Þarft verk myndu margir segja. Góð ábending, virkt aðhald. Ógæfufólk sem hefur misst ástvin hugsar ekki endilega skýrt. Það er tilbúið að greiða háar fjárhæðir fyrir ýmsar lygar um að ástvinir séu enn nærri, sárt en satt. Flestir átta sig á að þessu kukli hlýtur einn daginn að linna, með enn aukinni upplýsingu. En á meðan hægt er að hafa kaldlestur eða hvað þetta kallast að féþúfu mun sumt óprúttið fólk sjá sér hagnaðarvon í leit almennings sem oft tengist kreppu eða ógæfu. Kaldlesturinn misheppnaðist víst gjörsamlega þetta kvöld sem Frosti fór á fundinn. Hann taldi sér skylt að afhjúpa það sem hann kallar svindl.
Mikil ábyrgð felst í því að prestar taki sér það vald að gefa því opinbera dóma hvenær viðmælandi í viðtali fer yfir \"dónamörkin\" hvað varðar tungu og framkomu. Hofmóðugir prestar hafa nú ekki bara skammað Frosta fyrir dónaskapinn heldur hvetja þeir til þess opinberlega að þeir sem hafi horft á Stöð 2 hreinlega hætti því uns brugðist verði við. Með slíkri „skoðanakúgun“ eins og Máni Pétursson kallar það er ráðist að varðhundshlutverki fjölmiðla. Fjölmiðlum ber að veita bæði svindlurum og kennivaldi aðhald. Framsetning er þar ekki aðalmálið.
Það eru til margir frábærir prestar á landinu og vitaskuld skiptir hið andlega miklu máli, að finna fyrir tengslum okkar allra, samábyrgð og siðviti. Til þess geta trúarbrögð verið ágæt en með sama skapi ættu allir alltaf að velta fyrir sér hvað hvetji þá áfram sem gera sorg og ógæfu annarra að persónulegri féþúfu sinni. Kannski lifir sá eilíft sem á sér eftir dauðann stað í hjarta okkar sem eftir sitjum og að þannig séu dánir og lifandi órofa tengdir. Sumt fólk er næmara en annað. En kannski kemur sú staðreynd því ekkert við að sumir prestar virðast hreinlega við það að snappa í vörn sinni fyrir harla hæpnum málstað. Hvort skyldi það nú tengjast veraldlegri áherslu þeirra eða hinni andlegu?
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is)