Höskuldur Þórhallsson er einn þeirra þingmanna sem svífst einskis til að halda völdum eða komast til enn meiri valda. Margir muna eftir vandræðaganginum þegar hann bauð sig fram til formennsku í Framsókn og var úrskurðaður formaður í 5 mínútur og niðurstaðan síðan dregin til baka. Eftir þennan 5 mínútna formannsferil tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson við. Og vandræðagangurinn heldur áfram með sínum hætti.
Sigmundur ruddi Höskuldi til hliðar í NA-kjördæmi fyrir síðustu kosningar og víst er að illt er milli þeirra. Höskuldur er alveg til í að stinga Sigmund í bakið þegar hann stendur nú afar höllum fæti. Hann er kominn á fulla ferð til að bjóða sig fram á móti honum til formanns í Framsókn þegar aðrir virðast hika. Flokkurinn er í vonlausri stöðu. Ef Sigmundur verður áfram, þá er flokkurinn í tómu tjóni. Ef kemur til átaka um formannsstólinn verður það flokknum mjög erfitt. Enginn kostur er góður. Höskuldi er alveg sama. Hann vill hefna sín á Sigmundi og mun hjóla í hann til að fella hann úr formannsstólnum og út af listanum í NA-kjördæmi.
Í þessum tilgangi grípur Höskuldur nú öll hálmstrá til að vekja á sér athygli í kjördæminu. Hann hefur verið i fjölmiðlum til að reyna að þakka sér að nú á að lána ríkinu mikinn uppsafnaðan jarðveg úr Vaðlaheiðargöngum til að styrkja flughlað á Akureyrarflugvelli. Þá vakti það athygli í gær þegar dómur gekk í Hæstarétti Íslands varðandi lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli og innanríkisráðherra lýsti því yfir að málinu væri þar með lokið, að þá kom Höskuldur fram og sagðist myndu flytja frumvarp á þingi um að dómur Hæstaréttar yrði að engu hafður.
Þetta er ótrúleg ósvífni af hálfu þingmanns og sýnir að ekkert er heilagt þegar kemur að valdapoti stjórnmálamanna. Æðsta dómstólli landsins er ekki einu sinni sýnd virðing. Þetta er enn alvarlegra í ljósi þess að Höskuldur Þórhallsson er með lögfræðipróf og ætti því að skilja eðli dóma frá Hæstarétti.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem einnig er lögfræðingur, skilur þetta alveg og sagði á skýran og kláran hátt að málinu væri þar með lokið og að hún deildi ekki við dómsniðurstöður Hæstaréttar.
Höskuldur ætti að gera sér ljóst að með því að setja lög ofan í dóm Hæstaréttar væri verið að vega að eignarréttarákvæðum stjórnarskrár landsins og skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenskra sveitarfélaga. Þá myndi slík niðurstaða kosta ríkissjóð milljarða króna sem þyrfti að greiða í bætur til Reykjavíkurborgar.
Mál af þessu tagi mun aldrei fara gegnum þingið. Til þess getur ekki komið. En væntanlega mun upphlaupið duga Höskuldi eitthvað innan Framsóknar til að berja á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.