Pisa-sjokkið

Það voru grafalvarleg skilaboð fólgin í þeim niðurstöðum PISA-könnunarinnar sem kynntar voru í vikunni.

Um er að ræða alþjóðlega könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Í ár var sérstök áhersla lögð á lesskilning.

„PISA-sjokkið“ kallaði Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, niðurstöðurnar þegar hann ræddi þær á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Sjokkið kemur í hvert sinn sem PISA-niðurstöður eru kynntar og íslensk ungmenni ná ekki þeim árangri sem okkur þykir nægur.

Samandregið eru niðurstöður PISA í ár afleitar fyrir Ísland. Lesskilningur íslenskra nemenda er langt undir meðaltali OECD-ríkja. Hann hefur farið dalandi og er marktækt lakari en fyrir áratug.

Þetta er á sama tíma og við setjum meira fé í grunnskóla sem hlutfall af landsframleiðslu en nokkurt annað land. Við ættum því að gera ríkar kröfur þegar opinber útgjöld til fræðslumála eru svo mikil. Hagstofan segir fræðsluútgjöld hins opinbera fyrir síðasta ár hafa verið um 94 milljarðar króna til grunnskólanna. Að auki fær leikskólastigið um 20 milljarða.

Þrennt er hér eftirtektarvert:

Alvarlegast er að lesskilningur er með þeim hætti að þriðji hver drengur (34 prósent) og fimmta hver stúlka (19 prósent) geta ekki lesið sér til gagns.

Samkvæmt PISA er lestur metinn með sex hæfniþrepum. Þeir sem ná hæfniþrepi tvö geta lesið sér til gagns. Þetta er grundvallarfærni til að geta tekist á við lífið og frekara nám. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna hvetja til að allir nái lesskilningi á öðru hæfniþrepi.

Árangurinn í náttúruvísindum er svipaður og síðast en batnar lítillega í stærðfræði. Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, sagði í samtali við Fréttablaðið að Íslendingar hefðu gott af því að sjá stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Ef horft væri til baka hefðu Íslendingar í mörg ár ekki verið á þeirri leið sem æskileg sé í niðurstöðum PISA. Eftir síðustu könnun hefði verið lögð sérstök áhersla á lesskilning en það hefði ekki skilað sér í árangi.

Í öðru lagi eru þær niðurstöður alvarlegar sem liggja í miklum mun árangurs á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, þar sem nemendur standa sig verr á öllum sviðum PISA. Það hlýtur að kalla á sérstakar aðgerðir og skoðun. Þetta ætti líka að vera ákall um að styrkja minni sveitarfélögin með sameiningum.

Í þriðja lagi eru þetta alvarleg skilaboð um stöðu nýbúa. Niðurstöður fyrir börn innflytjenda eru með þeim hætti að gera verður stórátak í að ná til þess hóps. Forstjóri Menntamálastofnunar bendir réttilega á að með PISA sé verið að mæla getu ungs fólks til að búa sig undir að verða lýðræðissinnaðir borgarar.

Við hljótum að taka undir með formanni Skólastjórafélags Íslands þegar hann segir niðurstöðurnar kalla á nýjar leiðir. PISA mæli vissulega skólastarf en einnig málsamfélag. Allt samfélagið, skólarnir, heimilin, fjölmiðlar og ráðamenn, þarf að vinna saman að því að efla lesskilning íslenskra barna.