Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, tilkynnti í dag að hann gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu fyrir flokkinn eftir kosningar á þessu ári. Áður höfðu Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy einnig tilkynnt að þeir gefi ekki kost á sér áfram.
Þar með er ljóst að helmingur þingflokks Pírata er á útleið og það sem meira er: Betri helmingur þessa hóps hverfur á braut. Það er samdóma álit þingmanna annarra flokka á Alþingi að Helgi Hrafn og Smári séu hæfir þingmenn sem unnt er að treysta og vinna með. Það sama er ekki sagt um aðra þingmenn flokksins. Jón Þór Ólafsson er kominn með talsverða þingreynslu en hann var kjörin til setu á Alþingi vorið 2013 og hefur átt sæti þar síðan.
Með þeim þremenningum fer mikil reynsla úr þessum sex manna þingflokki og eftir sitja þau Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Ekki er vitað hverjir aðrir verða í framboði fyrir Pírata í komandi kosningum. Væntanlega verður það nýtt og reynslulaust fólk.
Píratar hafa mælst með ágætt fylgi í skoðanakönnunum í vetur. T.d sýndi síðasta Gallupkönnun 10,9 prósen stuðning sem myndi skila átta mönnum á þing. Reynslan kennir hins vegar að Píratar mælast ávalt mun betur í skoðanakönnunum en kosningum og í síðustu kosningum fengu þeir 9,2 prósent og sex menn kjörna.
Ætla má að umræddear mannabreytingar geri það að verkum að flokkurinn veikist og nái ekki góðri kosningu síðar á þessu ári. Auk þess gera margir í öðrum flokkum á Alþingi mikla fyrirvara um Björn Leví og Þórhildi Sunnu. Vandséð er að nokkur flokkur vilji bjóða þeim til samstarf um myndun ríkisstjórnar eftir næstu kosningar. Það hefði verið mun líklegra ef Helgi Hrafn og Smári hefðu haldið áfram í forystu Píratanna. En nú er útséð um það.