Píratar með prinsipp á hreinu

Hún er áhugaverð glænýja fréttin þar sem fram kemur að Píratar muni setja skilyrði til stjórnarsamstarfs að loknum kosningum.

Flokkurinn teflir djarfar en fram til þessa hefur þekkst í innlendri pólitík og kemur kannski ekki á óvart.

Við erum bara við sjálf, sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata í Kvikunni á Hringbraut sl. mánudagskvöld.

Samkvæm sjálfum sér hafa Píratar sett sér ófrávíkjanleg prinsipp. Í stað þess að tala opið og loðmullulega líkt og Íslendingar hafa vanist jafnt á miðju kjörtímabili sem rétt fyrir kosningar (ef undan eru skilin sértæk kosningaloforð sem síðan er hægt að rífast um árum saman hvort hafi verið efnd eða ekki) en Píratar segja með ákveðnum hætti: Við setjum sem skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi að lýðræðislega verið kosið um ESB og ný stjórnarskrá er algjört möst – ekki samningsatriði!

Það verður áhugavert að sjá hvernig Pírötum farnast í næstu fylgiskönnun eftir þetta skref. Að markera sig með því sem mætti nefna hugsjónadrifna afarkosti er vissulega áhætta á þessum tímapunkti. Andstæðingar munu nú skeiða fram á ritvöllinn með nokkuð fyrirsjáanlegum hætti og staðhæfa að stærsti flokkur landsins skv. skoðanakönnunum hafi gert mikil mistök. Með því að setja ófrávíkjanleg skilyrði. Að stjórnmál snúist um samninga.

Kannski vegna þess að hinir sömu hafi vanist því að mjölið sé myglað. Kannski vegna þess að þjóðin hefur vanist samtryggingu gömlu valdaflokkanna.

Kannski er nú runnið upp nýtt skeið prinsippa þar sem kjósendur geta vænst þess að vita með 100% vissu fyrir hvað flokkar standi. Og að hinir sömu flokkar séu reiðubúnir að taka pólitíska áhættu, að hugsjónaprinsippin séu völdum æðri.

Það yrði hressandi breyting og með vissum hætti frelsandi.

Fyrir utan hin augljósu tíðindi, að nú eru meiri líkur á að flokkar sem vilja bylta stjórnarskránni og eru sammála um að Gunnar Bragi Sveinsson, vaxandi stjórnmálamaður sem hann þó að vissu leyti er, hafi gert mikil mistök með því að höggva einhliða á línuna milli ESB og Íslands fyrr á þessu ári, eigi séns í næstu ríkisstjórn. Það gæti breytt pólitískri umræðu og áherslum svo um munar.

Maður veltir nú fyrir sér hvort eitthvað sem mætti kannski líkja við lýðræðislega sólarupprás kunni að vera í vændum þar sem nátttröll fortíðarinnar í hinni helfreðnu veröld íslenskra stjórnmála verði tekin og flengd.

Hvað verður þá um Bessastaði?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.is. Myndin að ofan er tekin af Sellandafjalli í Mývatnssveit)