Girnilegir drykkir bornir fram í háum og skemmtilegum glösum gleðja mannskapinn og nú er lag að nýta piparkökurnar ljúffengum sem komnar eru í matvöruverslanir á margbreytilegan hátt.
Berglind Hreiðars köku- og matarbloggari er svo frumleg og sniðug þegar kemur að því að brjóta upp hversdagsleikann og framreiddi þennan dásamlega piparkökusjeik sem sló í gegn á hennar heimili.
„Við erum nú þegar búin með nokkur box af piparkökum hér á bæ og stefnum ótrauð á að halda áfram. Ég hef séð það að það má nota piparkökur í ýmislegt annað en það að borða þær beint upp úr boxinu og gerði þennan sjeik á dögunum. Þessi er guðdómlegur með karamellu og piparkökum sem ég get lofað að mun koma ykkur skemmtilega á óvart,“segir Berglind hjá Gotterí og gersemar.
Piparkökusjeik
Fyrir tvo stór glös
400 g vanilluís
200 ml nýmjólk
12 stk. hjartapiparkökur (+ meira til skrauts)
2 msk. karamelluíssósa (+ meira til skrauts)
1 tsk. vanilludropar
¼ tsk. kanill
150 ml þeyttur rjómi
- Byrjið á því að mylja 12 piparkökur í blandaranum og setja í skál.
- Þeytið einnig rjómann og leggið til hliðar.
- Setjið þá nokkrar matskeiðar af karamellusósu í aðra skál og nuddið glasbarminum í sósuna og því næst í piparkökumulninginn til að gera fallega piparkökubrún á glasið.
- Hellið því næst smá af karamellusósu í hliðarnar á glasinu.
- Þá má útbúa sjeikinn með því að setja ís, mjólk, restina af piparkökuduftinu, 2 msk. af karamellusósu, vanilludropa og kanil í blandarann og blanda vel.
- Skiptið niður í glösin, toppið með vel af þeyttum rjóma og skreytið með piparkökumulningi og/eða heilli hjartapiparköku.
Gjörði svo vel og njótið./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.
*Allt hráefnið fæst í Bónus.