Pilsfaldakapítalistinn haraldur benediktsson bendir á skattgreiðendur

Ríkissjóður á að leysa vanda bænda sem kunna ekki að reka sauðfjárbúskap á Íslandi og svo þarf endilega að lækka veiðigjöldin verulega af því hagnaður sjávarútvegsins er ekki nægur, segir Haraldur Benediktsson í viðtali við landshlutablaðið Vesturland. Hann er svo seinheppinn að aðrir fjölmiðlar vitna í þetta viðtal daginn sem upplýst er að hagnaðiur Samherja á síðasta ári hafi numið 14,3 milljörðum króna eftir skatta. Þá var búið að gjaldfæra bæði veiðigjöld og tekjuskatt. Hagnaður eftir það er samt 14,3 milljarðar króna – sem Haraldi Benediktssyni virðist ekki þykja nægilegt. Hagnaður Samherja síðustu sex árin er samtals 86 milljarðar króna.

 

Haraldur er bóndi, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands. Hann gegnir nú formennsku í fjárlaganefnd Alþingis. Í umræddu viðtali ásakar hann Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, um meint aðgerðarleysi “gagnvart þeim vanda sem nú steðjar að sauðfjárrækt í landinu.”

 

Þessi umræða er algerlega galin. Í gildi er mjög umdeildur búvörusamningur milli ríkissjóðs og bænda sem tryggir bændum gríðarlegar fjárhæðir úr ríkissjóði næstu tíu árin, skattgreiðendum til lítillar gleði. En Haraldur og aðrir talsmenn bænda heimta meira vegna þess að þeir kunna greinilega ekki að reka atvinnugrein sína. Þeir virðast ekki geta áætlað hver þörf markaðarins er fyrir lambakjöt. Þeir reka 600,000 lömb á fjall til slátrunar í haust þegar eftirspurn er eftir afurðum af 400,000 lömbum. Þannig skapast gífurleg offramleiðsla með tilheyrandi verðfalli afurða og tapi. Og vegna þess að sauðfjárbændur virðast ekki kunna að reka atvinnugrein sína þá á ríkissjóður að koma til bjargar og borga þeim tapið með skattpeningum almennings.

 

Hér er á ferðinni hreinræktaður pilsfaldakapítalismi. Haraldur Benediktsson stígur nú fram sem öflugur talsmaður slíkrar stefnu.

 

Hverju ætlar Haraldur að svara öðrum atvinnugreinum sem kunna að lenda í tímabundnum rekstrarvanda? Eiga álverin að senda ríkissjóði reikninginn ef álverð lækkar í heiminum og tap verður af rekstri álveranna?

Hvað um þau fyrirtæki sem missa viðskipti vegna komu Costco inn á markaðinn? Eiga grænmetisbændur að senda ríkissjóði kröfu um bætur vegna Costco-áhrifa? Ef ferðamannastraumur minnkar eiga þá hótelin að senda ríkissjóði kröfur um bætur vegna lélegrar nýtingar hótelherbergja?

 

Auðvitað ekki. Pilsfaldakapítalismi er ekki viðurkennd stefna á Íslandi. Engin ástæða er til að innleiða þá stefnu núna. Bændur verða að reka atvinnustarfsemi sína eins og aðrir atvinnurekendur. Þeir verða að kunna fótum sínum forráð í rekstrinum og þeir verða að vinna faglega. Í öllum rekstri þarf að gera raunhæfar áætlanir og haga framleiðslu þannig að kaupendur fáist að henni. Annars fer illa.

 

Það eru engin rök fyrir því að þeir atvinnurekendur sem kunna ekki til verka geti krafið ríkissjóð, og þar með skattgreiðendur, um bætur fyrir eigin mistök. Bændur verða að horfast í augu við þann veruleika eins og aðrir sem stunda framleiðslu og atvinnurekstur.

 

Það er hreinn dónaskapur að ásaka ráðherra um aðgerðarleysi og “léttúð” eins og Haraldur Benediktsson leyfir sér að gera. Ráðherrar núverandi ríkisstjórnar báðu sauðfjárbændur ekki um að standa fyrir offramleiðslu á lambakjöti sem nemur tugum prósenta. Þeir ákváðu það sjálfir og þeir verða að taka afleiðingum gerða sinna.

 

Ekki er sanngjarnt að senda skattgreiðendum reikning fyrir rekstrarmistök sauðfjárbændanna.

 

Haraldur Benediktsson var kjörinn á þing gagngert til að gæta sérhagsmuna landbúnaðar og sjávarútvegs. Mikilvægt er að einhverjir hafi þor og kjark til að standa gegn slíkri hagsmunagæslu pilsfaldakapítalista af þessu tagi.

 

Rtá.