Kristínu Edwald hæstarréttarlögmanni hjá Lögmannstofunni LEX er margt til lista lagt. Hún er einstaklega lagin í eldhúsinu og allt sem hún gerir er vandað og hugsað er fyrir öllum smáatriðum. Umgjörðin er augnakonfekt og réttirnir sem hún galdrar fram eru algjört lostæti. Kristín er komin í sumarskap og galdraði fram þessa sumarlegu pikkluðu sítrónur sem eru ljúffengar eina og sér og sem meðlæti með ýmsum réttum. Við fengum hjá henni uppskriftina og leiðbeiningar hvernig við eigum að bera okkur við framreiðsluna.
Pikklaðar sítrónur Kristínar Edwald
7-8 lífrænt ræktaðar sítrónur
1 bolli sjávarsalt
1 - 2 msk. sykur
Byrjið á því að þrífa sítrónurnar vel og þerra. Skerið endana af 5-6 sítrónunum og skerið þær svo í fjóra báta. Blandið sykri og salti saman. Raðið sítrónunum ásamt salt og sykurblöndunni mjög þétt í hreina krukku. Passið að blandan dreifist vel á sítrónurnar. Haldið áfram þar til krukkan er þétt full. Skerið tvær sítrónur til helminga og kreistið safann úr þeim yfir sítrónurnar í krukkunni. Lokið krukkunni með plast- eða glerloki. Ef notuð er krukka með járnloki er nauðsynlegt að hylja lokið með plastfilmu þannig að saltið og sítrónan skemmi ekki járnið. Látið krukkuna í standa í tvær vikur í stofuhita og setjið svo í kæli en þá eru sítrónurnar tilbúnar til notkunar. Sítrónurnar eru góðar sem meðlæti með ýmsum réttum en líka hægt að nota þær í stað sítrónubarkar í uppskriftum.
Verði ykkur að góðu.