Stýrivaxtahækkun Seðlabankans á dögunum hefur mætt mikilli óánægju, ekki síst meðal almennings.
Hækkunin eykur greiðslubyrði landsmanna og þá ekki síst hjá lántakendum óverðtryggðra lána. Hækkunin er skýrð sem nauðsynleg aðgerð gegn verðbólgu. En þrátt fyrir offors einhverra alhæstu vaxta í heimi er það gömul saga og ný að verðbólga étur upp gjaldmiðilinn okkar dag frá degi. Íslenska krónan hefur minnkað að raunverðgildi um 99,95% frá 1920 sé miðað við þróun gagnvart dönsku krónunni.
Hallgrímur Óskarsson verkfræðingur skrifar um íslensku krónuna í pistli á eigin facebook-síðu vegna síðustu vaxtahækkunar Seðlabankans: „Hálf ónýt mynt sem byrjar á brauðfótum og vinnur gegn hagsmunum fólks, en er vinur fjármagnseigenda sem fá öryggi og axlabönd á meðan krónan færir fólkinu í landinu vaxtaokur og tífallt hærri vaxtabyrðar en þekkist í veröldinni. Tja, nema í löndum eins og Gambíu og Afghanistan þar sem vextir eru hærri. Og jú í Nepal, eftir jarðskjálftana.“
Hallgrímur hittir kannski naglann á höfuðið. Í náttúruhamförum lamast innviðir ríkja, tímabundinn stórskaði veikir gengi og stórfelld vaxtahækkun er ákveðin sem neyðaraðgerð. Í íslensku peningastefnunni má segja að gengið sé út frá stanslausum skaða, linnulausum náttúruhamförum. Enda er einn allsherjar efnahagslegur stórskjálfti að búa hér. Lán til íbúðakaupa margfaldast á uppgreiðslutíma þar sem höfuðstóll lækkar jafnvel ekki fyrr en eftir áratuga greiðslur. Þegar alþjóðaumhverfið dælir peningum inn í íslenska hagkerfið, samanber árin fyrir hrun, kann að fara svo að sauðsvartur almenningurinn sjái til sólar en skuldadagar fylgja jafnan slíkri sólarlandaferð.
Veigamikill þáttur í þessari óheillasögu kallast Price Index, hin alræmda verðtrygging. Flestir útlendingar sem koma hingað til lands eiga erfitt með að skilja það fyrirbæri þótt enginn efist um að því var komið á í góðum tilgangi. Þannig er um ýmislegt – ágæt hugsun að baki en reynslan sýnir svo að hugmyndin var ekki góð. Hér ber efnahagslífið þó höfðinu við steininn og reynir áratugum saman að fá betri útkomu með sömu leiðinni. Allt kemur fyrir ekki. Stöðugleiki er bara orð en ekki ástand og eignir almennings brenna jafnharðan upp, öðru máli gegnir um fjármagnseigendur og bankana, þeir hagnast á hamförunum.
Hve lengi ætla Íslendingar að láta bjóða sér peningastefnu linnulausra náttúruhamfara? Burtséð frá spurningunni um aðild að ESB eða ekki – hve lengi ætlar þrautpíndur almenningur að láta það yfir sig ganga að standa ekki með sjálfum sér – bíta í eigin skuldahala, blessa kerfi sem gengur út á að hinir digru haldi sínu og blási jafnvel út, strita frá morgni til kvölds, jafnvel um helgar líka, eyða öllu lífinu í að eignast – í versta falli ekkert…