Miðflokksarmur Sjálfstæðisflokksins lagði mikla áherslu á að koma Arnari Þór Jónssyni, héraðadómara, í öruggt sæti í prófkjöri flokksins í Kraganum fyrir skemmstu. Þau áform náðu ekki fram að ganga. Arnar Þór er harður Evrópuandstæðingur og hefur verið mótfallinn EES-samningnum og þriðja orkupakkanum þvert á stefnu flokksins. Hörðustu hægri menn flokksins gerðu sér vonir um að Arnar Þór næði þriðja sæti á lista flokksins í Kraganum en það mistókst algerlega. Hann lenti í fimmta sæti og á því engan möguleika á að komast á þing. Flokkurinn hefur nú fjóra þingmenn í kjördæminu og mun væntanlega eiga fullt í fangi með að halda Óla Birni Kárasyni inni en hann skipar hið óvissa baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, fjórða sætið.
Þrátt fyrir vonbrigði og tap í prófkjöri flokksins ákvað Arnar Þór að taka fimmta sætið og situr þar. Hann hefur þó ekki enn látið af dómarastörfum sem er einkennilegt í ljósi þess að dómarastörf og pólitísk framboð samrýmast ekki.
Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag fer dómarinn mikinn og beinir meðal annars spjótum sínum að Þorsteini Pálssyni. Arnar Þór fullyrðir að málflutningur Þorsteins og annarra, sem fært hafa rök fyrir því að rökrétt næsta skref Íslands í alþjóðasamstarfi sé að sækjast eftir fullri aðild að ESB, sé bæði klisjukenndur og villandi – það hafi hann sjálfur sýnt fram á með rökum. Raunar er erfitt að skilja skrif dómarans á annan veg en þann að allir sem séu honum ósammála beiti „afbökunum, ýkjum og rangfærslum“ máli sínu til stuðnings en sjálfur hreki hann vitleysuna með skotheldum rökum.
Í grein sinni fullyrðir Arnar Þór að Íslendingar hafi gert viðskiptasamning við Efnahagsbandalag Evrópu 1993, EES-samninginn, en „aldrei samþykkt að ganga í pólitískt bandalag við ESB eða lúta forræði þess“. Hér er dómarinn á hálum ís. Fyrir utan að samningurinn var gerður nokkru fyrr, þótt hann hafi tekið gildi 1993, þá er EES töluvert meira en bara viðskiptasamningur. EES snýst um fjórfrelsið – frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks. EES gengur í stórum dráttum út á að Noregur, Ísland og Liechtenstein skuldbinda sig til að taka upp regluverk ESB og festa í landslög án þess að fá aðkomu að reglugerðarvaldinu í Brüssel. Með öðrum orðum þá samþykktum við Íslendingar að lúta forræði ESB þegar við samþykktum EES samninginn.
Héraðsdómarinn fullyrðir í grein sinni að smáríki séu „peð á hinu fjölþjóðlega taflborði ESB.“ Væntanlega ber að lesa þessa fullyrðingu í samhengi við þær fullyrðingar hans að fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi „gengið í lið með þeim sem vilja grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar með staðlausum stöfum og hræðsluáróðri; með þeim sem vilja að Íslendingar gefi frá sér til útlanda aftur stjórn eigin mála sem þeir svo lengi börðust fyrir að fá inn í landið.“ Hér fullyrðir Arnar Þór í raun að lönd á borð við Danmörku, Svíþjóð, Finnland, Lúxemborg, Möltu, Holland, Írland og Austurríki séu ekki frjáls og fullvalda ríki, þau fari ekki með stjórn eigin mála vegna þess að þau séu í ESB. Dæmi nú hver fyrir sig um það hver það er sem beitir hræðsluáróðri, klisjum og rangfærslum.
EES samningurinn hefur stórlega bætt hag íslenskra fyrirtækja og heimila frá því að hann tók gildi. Neytendavernd á Íslandi er nánast öll tilkomin með lögfestingu reglna ESB hér á landi. Óhætt er að fullyrða að dómarar við EFTA dómstólinn hafi staðið betri vörð um réttindi íslenskra neytenda en íslenskir dómarar, sem því miður virðast oft taka þátt í að beita lögum og rétti sem vopni í þágu ríkis og valdsins og gegn fólkinu í landinu. Má þar nefna sem dæmi ýmis skattamál þar sem íslenskir dómstólar hafa gert fólki refsingu vegna mála sem þegar er búið að refsa fyrir inni í skattkerfinu. Við fulla aðild að ESB yrði Evrópudómstóllinn æðsti dómstóll og þegar horft er til dómafordæma þaðan og þau borin saman við dómafordæmi íslenskra dómstóla yrði það ótvírætt framfaraskref fyrir íslenska neytendur. Kannski mætti kalla það peðsfórn í sóknartafli til bættra lífskjara og aukinna réttinda almennings á Íslandi að fá Evrópudómstólinn yfir íslenska dómstóla?
- Ólafur Arnarson