Páskamarengsterta með ferskum berjum og súkkulaðieggjum

Gunnlaugur Arnar Ingason sem er alla jafnan kallaður Gulli Arnar, er 26 ára gamall Hafnfirðingur og bakari og konditor. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á eldamennsku og bakstri og hóf sinn bakaraferil aðeins 18 ára gamall. Sjöfn Þórðar heimsótti hann á dögunum í þættinum Matur og Heimili þar sem hann töfraði fram uppáhalds páskaeftirréttinn sinn.

FB-Ernir210311-Gulli-02.jpg

Gunnlaugur Arnar Ingason heldur mikið uppá marengstertuna sem mamma hans bakar á páskunum./Fréttablaðið Ernir ljósmyndari.

Opnaði bakarí og konditori í miðjum Covid faraldri

„Ég útskrifaðist sem bakari 2017 og hélt þá í áframhaldandi bakaranám í Kaupmannahöfn til að bæta við mig starfstitlinum konditor. Þar féll ég algjörlega fyrir starfsumhverfinu og vörunum sem við vorum að framleiða og langaði að innleiða þær til Íslands. Ég flutti heim frá Kaupmannahöfn í janúar 2020 og var þá á leiðinni út til Taíwan í baksturskeppni um vorið þegar Covid faraldurinn skall á og stöðvaði allt. Í kjölfarið ákvað ég að kýla á framtíðardrauminn um að opna bakarí og konditori. Það var svo um vorið, eða 23.apríl, sem hann varð að veruleika og bakaríið mitt, Gulli Arnar, opnaði. Það hefur svo verið í stöðugri framþróunn síðan þá.“

Finnur miklum áhuga á bakstri

Framtíðin er björt hjá Gulla Arnari og bakaríið hefur stækkað hratt á þessu tæpa ári. „Ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu sem verður á litla bakaríinu mínu og finnst gaman að finna fyrir miklum bakstursáhuga á Íslandi. Það eru margir farnir að baka meira heima hjá sér, bæði tertur og brauð og áhuginn á fagfólki í bakstri er mikill sem er ánægjulegt. En ég finn fyrir stóraukningu í áhuga frá því að ég byrjaði fyrst í bakstri árið 2013. Ég finn einnig mikið fyrir áhuga hjá fólki að fá að fylgjast með bakvið tjöldin eins og á instagram reikningnum mínum @gulliarnar. Ég vona að bakstur haldi áfram að blómstra og bæði heimabakarar og fagfólk og sérstaklega unga kynslóð nýrra bakara, finni áfram ánægjuna við bakstur.“

Lambalærið og marengstertan á páskunum

Páskarnir nálgast óðfluga og þá er áhugavert að skyggnast í matarhefðir og venjur hjá Gulla Arnari. Heldur þú í matarhefðir og venjur á páskunum? „Mér hefur alltaf þótt gott að fá lambalæri á páskadag og þar auðvitað skiptir meðlætið mestu máli. Það er svo alltaf gott að enda máltíðina á marengstertu frá mömmu, þó svo ég sé farinn að taka við keflinu í eftirrétta gerðinni.“

Páskaegg nr. 4 hefðin

Áttu þér þitt uppáhalds páskaeggi? „Ég er mjög einfaldur þegar það kemur að páskaeggi og vill helst ekki hafa það viðbætt of miklu. Mamma sér yfirleitt um páskaeggja kaupin og þar er venjulega hefðbundið páskaegg nr. 4 fyrir valinu,“ segir Gulli Arnar og nýtur þess ávallt að borða páskaegg á páskunum. Eftirminnilegasti málshátturinn þinn? „Ég man sérstaklega eftir því þegar ég var í grunnskóla og var mikið tekinn á teppið fyrir að flýta mér of mikið og vilja klára hlutina hratt af á kostnað gæða verkefnana, þegar ég fékk málsháttinn: „Flýtisverk er lýtisverk.“ Það var góð áminning um að gera hlutina vel.“ Föndrar þú fyrir páskana? „Ef ég á að svara þessu allveg heiðarlega þá held ég að ég hafi ekki föndrað mikið á minni lífsleið, en það er ekki mikill föndurskap í fjölskyldunni og ofvirknin og drifkrafturinn vill yfirleitt vera gera eitthvað annað.“

Æskuminningarnar gegnum páskaeftirréttinn

Er einhver eftirréttur í uppáhaldi hjá þér um páskana sem þú ert til í að ljóstra leyndardómnum yfir og gefa okkur uppskriftina? „Mér finnst heslihnetumarengsinn hjá mömmu það sem einkennir páskana hjá okkur. Það tók svolítið á þegar ég bjó í Kaupmannahöfn í tvö ár að missa af honum.“ Gulli Arnar segir að þessi marengsterta sé í raun bara æskuminningar út í gegn og er sérstaklega góður. „Heslihnetubotnanir gera hann svolítið frábrugðnum þessum hefðbundna Rice Krispís marengs sem hefur líka verið vinsæll á mörgum heimilum.“

Páskamarengstertan að hætti mömmu

Heslihnetumarengsbotn

195 g hakkaðar heslihnetur

10 g hveiti

100 g sykur

120 g eggjahvítur

100 g sykur

Byrjið að hita ofninn í 170°C. Því næst byrjið á því að blanda saman heslihnetum, hveiti og sykri. Þeytið eggjahvíturnar og sykur saman í marengs. Þegar marengsinn er þeyttur er heslihnetublöndunni blandað varlega saman við marengsinn. Smyrjið botninum út í um það bil 22 cm botna. Bakið við 170° gráður í 20-25 mínútur á blæstri. Látið botnana kólna og allra best er að gera þá daginn áður en það á að nota þá.

Samsetningin á tertunni getur verið höfði hvers og eins en mér þykir mjög gott að setja fersk hindber, kókosbollur og rjóma á milli. Ég set svo efri botninn á og helli súkkulaði bráð með yfir

Á milli botnana og sem skraut

(Gulli Arnar notaði þetta í þættinum Matur og Heimili)

1 pakki hindber

bláber eftir smekk

jarðaber eftir smekk

½ l rjómi

1 pakki mini kókosbollur

Lítil súkkulaði páskaegg eftir smekk

Súkkulaðibráð

150 g rjómi

200 g súkkulaði

Hitið rjóma að suðu og hellið yfir súkkulaðið og blandið saman. Hellið svo súkkulaðiblöndunni yfir tertuna og látið leka meðfram hliðunum. Skreytið svo tertuna með ferskum berjum og litlum páskaeggjum eftir smekk.