Berglind Guðmundsdóttir er einn vinsælasti köku- og matarbloggari landsins með uppskriftarsíðuna Gulur, rauður, grænn og salt ásamt því halda úti hlaðvarpinu Matur fyrir sálina. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og það má með sanni segja að það fari vel með þessu tvennu þar sem Berglind nær að samtvinna ástríðu sína, menntun og hæfileika. „Ég elska að takast á við nýjar áskoranir og láta drauma mína rætast og mig langar jafnframt að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama. Það var markmiðið með hlaðvarpinu sem ég byrjaði nýlega með. Ég nýt svo þeirrar gæfu að eiga fjögur börn sem gefa lífinu lit og hafa kennt mér mikið,“ segir Berglind og nýtur sín til fulls í hlaðvarpinu. Við fengum Berglindi til að segja okkur aðeins frá sínum matarhefðum og venjum um páskana og deila með okkur uppskrift sem er góð fyrir sálin um páskana. Hún er annáluð fyrir sínar ómótstæðilegu og ljúffengu uppskriftir þar sem hún er ekkert að flækja hlutina og flestir ráða við.
Frelsið besta við páskana
Heldur þú í matarhefðir og venjur á páskunum? „Það væri þá kannski helst hefðin að fela páskaeggin. Annars er frelsið það besta við páskana. Það á ekkert að vera einhvern veginn og hægt að gera skemmtilega hluti eins og að ferðast, fara i útivist eða bara hvílast ef manni líður þannig. Mér finnst annars rosalega gaman að fara á skíði um páskana.“ Áttu þér þitt uppáhalds páskaeggi? „Heyrðu já, fótboltapáskaeggið – líklegast af því að það er risastórt og með fullt af nammi.“ Eftirminnilegasti málshátturinn? „Láttu það góða ganga.“ Berglind segir að fjölskyldan föndri ekki mikið um páskana, þau hafi stundum blásið úr eggjum, málað þau og hengt á greinar. “Það er gaman að föndra þó ég geri ekki mikið af því.“
Gulrótarkaka í páskabúningi
Við fengum Berglindi til að deila með okkur einni af sinni uppáhalds köku úr smiðju sinni sem á vel við yfir páskahátíðina. „Mér finnst gulrótakökur mjög góðar og það er hægt að klæða þær upp og niður. Ég ætla að gefa ykkur uppskrift af einni góðri sem hægt er að setja í páskabúning.“ Berglind segir að það sé ekki nein sérstök saga bak við kökuna en þessi sé einföld og auðveld fyrir alla. „Bara það að ef þið eruð eins og ég og ekkert sérstaklega fær í að skreyta kökur að þá er bara gott að hafa þetta einfalt. Og setja svo nokkur nammiegg yfir kökuna. Þá fatta allir þemað. “
Berglind býður hér uppá guðdómlega ljúffenga páska gulrótarköku sem er svo góð fyrir sálina./Fréttablaðið Anton Brink.
Páskaleg gulrótarkaka
150 g hrásykur
100 g púðursykur
200 g smjör mjúkt
4 stk egg
250 g hveiti
2 tsk kanill
1 tsk lyftiduft
½ tsk matarsódi
Klípa af salti
350 g gulrætur
Hrærið hrásykur, púðursykur og mjúkt smjörið vel saman. Bætið eggjum saman við, einu í einu og hrærið áfram þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið hveiti, kanil, lyftidufti, matarsóda og salti saman við og hrærið saman þar til allt hefur blandast vel saman. Rífið gulræturnar niður, setjið í deigið og hrærið. Látið smjörpappír í bökunarform (ca 24cm) og hellið deiginu þar í. Bakið kökuna í 175°C heitum ofni í 45 mínútur. Stingið með prjóni í miðja kökuna og athugið hvort hún sé fullbökuð.
Takið úr ofni og kælið. Skerið í tvennt þannig að úr verði tveir kökubotnar.
Rjómaosta- og mascarponekrem
200 g Mascarpone
200 g Philadelphia rjómaostur
½ sítróna
50 g flórsykur
Fínrífið börkinn af sítrónunni og kreistið safann úr sítrónunni. Látið öll hráefnin saman í skál og hrærið þar til kremið er orðið létt og ljóst. Látið krem á annan kökubotninn og látið hinn síðan yfir. Þekið kökuna með kreminu og skreytið með litlum páskaeggjum.
Gleðilega páska.