Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er svartsýnn á stjórnarmyndunarviðræðurnar milli formannahans flokks,Vinstri grænna og Framsóknar um áframhaldandi stjórnarsamstarf. Segir Brynjar eins líklegt að Framsókn snúi sér til vinstri og mynduð verði vinstri stjórn. Þetta er skondin sýn hjá þingmanninum fyrrverandi vegna þess að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn halla sér nú þegar til vinstri með þessum viðræðum og hafa síðastliðin fjögur ár starfað í vinstri stjórn undir forystu Vinstri grænna.
Brynjar segir margt þurfa að breytast varðandi málefnin til að saman gangi í viðræðum um framhaldslíf stjórnarinnar. Nefnir hann heilbrigðismál, virkjanamál, miðhálendisþjóðgarð og rammaáætlun sem dæmi. Sérstaklega nefnir hann vonda stöðu í heilbrigðismálum þar sem fólk bíður mánuðum og jafnvel árum saman óvinnufært á biðlistum eftir liðskiptaaðgerðumvegna þess að ekki megi semja við einkaaðila í Ármúla þar sem þeir gætu mögulega hagnast eitthvað. Þetta er alveg rétt hjá Brynjari. Ríkisvæðingin í heilbrigðiskerfinu og andstaðan við einkarekstur er með öllu óboðleg. En þetta er ekkert nýttog þetta er ekki bundið við Vinstri græna.
Á liðnum árum hafa fleiri en einn heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins rekið nákvæmlega sömu stefnu og Svandís Svavarsdóttir varðandi liðskiptaaðgerðir. Því þýðir lítið að benda á Vinstri græna og kenna þeim um. Ef sjálfstæðismönnum væri minnsta alvara með að semja við innlenda einkaaðila um liðskiptaaðgerðir hefðu þeir hunskast til að gera það sjálfir þegar þeir réðu heilbrigðisráðuneytinu.
Brynjar hefur á þingferli sínum verið frakkur og kjaftfor á samfélagsmiðlum. Minna hefur borið á athafnasemi inni á þingi. Þar hefur hann lítið látið til sín taka, flutt fáar tillögur og verið sniðgenginn af flokki sínum, var til dæmis aldrei valinn í embætti dómsmálaráðherra, sem flokkurinn hefur haft allan þingtíma Brynjars, þrátt fyrir að hann sé óumdeilanlega sá þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem býr yfir mestri reynslu í þeim málaflokki.
Nú sér Brynjar fram á að standa vaktina á samfélagsmiðlum í hlutverki „heimavinnandi húsmóður“, eins og hann hefur sjálfur orðað það, í stað þess að geta gert það á fullu þingfararkaupi. Hann er sársvekktur, sem vonlegt er. Ekki ber að túlka þessi orð sem gagnrýni á Brynjar. Verklítill þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eins og sá flokkur er orðinn í dag, er ekki endilega sá versti. Hann gæti jafnvel verið sá skásti.
Vitanlega er rétt að á milli ríkisstjórnarflokkanna ergrundvallarágreiningur – eða ætti að minnsta kosti að vera – um málaflokka á borð við orkuframleiðslu, verndun hálendis, skattamál, heilbrigðismál, atvinnuþróun og stjórnarskrá. Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð voru uppi allt aðrar aðstæður í pólitíkinni en nú er. Þá var hætta á alvarlegri stjórnarkreppu og menn notuðu það til réttlætingar á ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins við Vinstri græna undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur.
Nú er staðan önnur. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn geta myndað þriggja flokka stjórnir með nokkrum flokkum og hljóta að skoða slíka kosti í fullri alvöru í stað þess að rembast eins og rjúpan við staurinn við að reyna að halda VG inni – og raunar í stjórnarforystu – þrátt fyrir stórtap þeirra í kosningunum þar sem þeir töpuðu þremur þingmönnnum og eru núna átta manna þingflokkur.
Standi vilji sjálfstæðismanna í raun og veru til þess að hér verði ekki mynduð vinstri stjórn, sem snýst helst um háa skatta, ríkisrekstur og miðhálendisþjóðgarð, hljóta þeir að kanna samstarf við aðra flokka en Vinstri græna. Fari Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Vinstri grænum núna er ljóst að megintilgangur flokksins í íslenskum stjórnmálum er alls ekki að afstýra vinstri stjórn, lækka skatta og skapa heilbrigðar aðstæður fyrir íslenskt atvinnulíf. Þá er tilgangurinn einhver allt annar.
- Ólafur Arnarson