„Ef manni misbýður eitthvað er það ákveðin tegund af meðvirkni að láta eins og ekkert sé - og segja ekki skoðun sína. Maður verður þá líka á vissan hátt samábyrgur með því sem manni mislíkar,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í pistli sínum á Facebook.
Þannig skýrir hann kvörtunarbréf sem hann sendi ritstjóra Eyjafrétta í gær. Í bréfinu kvartar Eyjamaðurinn og reyndur fjölmiðlamaðurinn yfir því að einn stærsti fjölmiðill Vestmannaeyja hafi ekki greint frá upplýsingar- og hvatningargrein sem bæjarstjóri Vestmannaeyja birti í vikunni. Páll telur þar að persónuleg óvild ritstjórans í garð bæjarstjórans sé ástæðan fyrir þessu.
„Greinin birtist á facebooksíðu bæjarstjórans og heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Eyjamiðlarnir tigull.is og eyjar.net mátu það eðlilega sem svo að greinin ætti fullt og brýnt erindi við alla bæjarbúa og birtu hana. Stærstu netmiðlar landsins, vísir.is og mbl.is, mátu það sem svo að greinin hefði jafnvel enn víðari skírskotun. Þeir birtu fréttir upp úr greininni og færslu bæjarstjórans í heild sinni. En ekki eyjafréttir.is í Vestmannaeyjum,“ segir Páll.
„Þitt mat sem ritstjóra var að þessar upplýsingar og þessi hvatning til Eyjamanna á óvissutímum ættu ekkert erindi inn í þinn miðil. Af þessu þykir mér ljóst að persónuleg óvild þín í garð bæjarstjórans hefur ráðið för og vegið þyngra en eðlileg grundvallarsjónarmið í ritstjórn. Og það sem verra er: óvildin vegur þá líka þyngra en upplýsingaskylda miðilsins við bæjarbúa í Vestmannaeyjum - og almenn samfélagsleg ábyrgð.
Það hefur verið aðall okkar Eyjamanna að þegar á móti blæs - og að samfélaginu steðjar einhver utanaðkomandi ógn - þá stöndum við saman. Sagan geymir mörg dæmi um þetta. Nú skora ég á þig að víkja þessari persónulegu óvild til hliðar - a.m.k. meðan á þessum erfiðleikum stendur - og láta skyldur og ábyrgð miðilsins við Eyjamenn ráða för,“ heldur hann áfram í bréfinu.
„Þér er frjálst að haga þinni ritstjórnarstefnu eins og þú vilt en mér er jafn frjálst að ákveða hvort sú stefna eigi eitthvað erindi við mig. Það á hún ekki að svo komnu máli - og því segi ég hér með upp áskriftinni.
Ég vona að að þú verðir við þessari áskorun minni og þá get ég endurnýjað langa og góða samfylgd með Eyjafréttum.“