Pabbi var tekinn frá okkur án nokkurs fyrirvara: hann veit hver ég er en hann veit ekki hvað er að

Lífið okkar kemur í tímabilum og undanfarna mánuði/ár hef ég verið að ganga í gegnum allskonar hluti sem kröfðust þess að ég sinnti sjálfri mér, börnunum og minni nánustu fjölskyldu betur. Það er svo mikilvægt stundum að taka sér tíma til þess að stoppa, endurhugsa og bæta lífið og líðanina. Það er það sem ég hef verið að gera. Ég er búin að leggja rækt við mikla sjálfsvinnu sem hefur skipt mig miklu máli. Lífið er nefnilega allskonar. Við getum ekki valið okkur hvaða veikindi banka upp á og hvað framtíðin býður okkur uppá. En við getum valið það hvernig við ætlum að takast á við það.

Ég ákvað að taka erfiðleikum með æðruleysi og þakklæti. Það er ekki alltaf auðvelt. Óguð nei!

Það erfiðasta sem ég hef þurft að takast á við undanfarið eru veikindi pabba míns. Við pabbi áttum einstakt samband, hann gerði allt fyrir mig og okkur fjölskylduna og var ávallt reiðubúinn til þess að gera allt fyrir okkur. Fyrir nokkrum árum fór að halla undan fæti hjá honum og við fjölskyldan fórum að taka eftir breytingum, þær gerðust hægt en mjög stöðugt.

Áður en við vissum af var pabbi kominn inn á spítala og greining lá fyrir. Framheilabilun. Hjá annars fullkomlega heilbrigðum 59 ára gömlum föður mínum. Picks er það sem læknarnir vilja kalla þetta.

Skyndilega var pabbi hrifsaður frá okkur öllum en samt til staðar. Þessi veikindi hafa tekið meira á mig heldur en ég get útskýrt. Suma daga græt ég svo sárt að ég er óhuggandi. Aðra daga fagna ég því hversu yndislegan tíma við fengum saman og hversu þakklát ég sé fyrir það að hann hafi fengið að kynnast börnunum mínum. Pabbi elskaði börnin mín og þau hann. Hann þekkir okkur enn og þrátt fyrir það hversu erfitt það er að sjá pabba sinn í þessari stöðu þá fer ég eins oft til hans og ég get. Í hvert skipti sm ég sé hann sé ég á sama tíma ást, gleði og sorg í augum hans. Hann veit hver ég er en hann veit ekki hvað er að sér.

\"\"

Því miður eru engin úrræði fyrir fólk á hans aldri og býr hann því í dag á elliheimili. Með gamla fólkinu. Pabbi minn, sem er 59 ára gamall og gerði upp hús með mér fyrir örfáum árum.

Ég mun aldrei geta þakkað nógu mikið fyrir það hvað við fjölskyldan erum samheldin og náin. Við höfum alltaf verið það en veikindi pabba hafa dregið okkur ennþá nærri hvoru öðru og finnum við styrkinn hjá hverju og einu okkar til þess að takast á við þetta.

\"\"

Mamma mín er líklega ein sterkasta kona sem ég hef kynnst. Þrátt fyrir alla þá erfiðleika sem hún hefur tekist á við þá er hún alltaf til staðar fyrir okkur öll. Tilbúin með opna arma. Dóttir mín og mamma eiga líka einstakt samband og ef hún fengi að ráða þá eyddi hún líklega öllum stundum með ömmu sinni. Það er svo dýrmætt, fyrir þær báðar.

Já, lífið gerist og við veljum okkur ekki veikindi. Svo mikið er víst. Þegar ég settist niður til þess að skrifa þetta ætlaði ég sko aldeilis ekki að fara svona djúpt í hlutina en svona er þetta, þegar ég byrja opnast flóðgátt.

Þrátt fyrir allt sem gengið hefur á þá líður mér vel. Enda búin að vinna mér inn fyrir því með mikilli sjalfsrannsókn. Ég á dásamlega fjölskyldu, yndisleg börn, ástríkann eiginmann og frábæra tengdafjölskyldu. Svo er ég svo rík af einstaklega góðum vinkonum sem standa ávallt tilbúnar á hliðarlínunni. Heppni mín og hamingja liggur öll í fólkinu í kringum mig. Það er ekki mikið meira sem ég þarf.

Pistill minn birtist upphaflega á síðu Fagurkera.