Vonandi er veiruvandinn að baki. Á miðnætti verður öllum takmörkunum aflétt innanlands og brátt gengur lífið sinn vanagang á Íslandi – svo fremi að ekki verði bakslag.
Ein afleiðing þessa verður að kastljós fjölmiðla mun ekki lengur beinast að Svandísi Svavarsdóttur og Katrínu Jakobsdóttur með sama hætti og verið hefur í meira en ár. Út á alla athyglina hefur flokkur þeirra fengið þokkalega útkomu í skoðanakönnunum. Gott gengi flokksins hefur mikið til komið til af því að frá því veiran hóf innreið sína hér á landi hefur nær engin pólitísk umræða farið fram. Forsætis- og heilbrigðisráðherra hafa hins vegar stöðugt stillt sér upp við hlið þríeykisins og baðað sig í ljómanum sem af því stafar. Nú sér fyrir endann á því. Nú hefst stjórnmálaumræða að nýju. Mörg vandræðamál VG munu því fá eðlilega athygli.
Katrín kemur óneitanlega löskuð út úr störfum þingsins á þessu kjörtímabili þótt hún njóti vinsælda meðal þjóðarinnar. Hún kom breytingum á stjórnarskrá ekki í gegnum þingið. Var gerð afturreka með málið eftir að hafa leitt það í fjögur ár með engum árangri. Þá er niðurstaðan varðandi hálendisþjóðgarðinn mikið áfall fyrir VG, enda ber stjórnarsáttmálinn frá 2017 með sér að flokkurinn hafi fórnað mörgum prinsippmálum sínum í stjórnarmynduninni til að ná því máli fram. Nú situr VG uppi með að hafa svikið mörg hjartans mál kjósenda sinna fyrir hálendisþjóðgarð sem svo ekki verður.
Ráðherrar Vinstri grænna munu ekki geta skýlt sér á bak við góða lendingu í veirumálum þjóðarinnar vegna þess að enginn ágreiningur hefur verið um þau mál í stjórnmálaflokkum landsins – ef undanskilin er ólund Miðflokksins og sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, einkum Sigríðar Andersen og Brynjars Níelssonar. Þeim var refsað í prófkjöri og á tíma leit út fyrir að Brynjar myndi hætta í stjórnmálum en nú hefur honum snúist hugur. Væntanlega hefur flokksforystan, sem vann gegn honum í prófkjörinu, áttað sig á því að án hans og Sigríðar á lista myndi Miðflokkurinn hirða drjúgan hluta fylgis Sjálfstæðisflokksins – ekki bara í Reykjavík heldur í öllum kjördæmum. Veiran getur ekki orðið kosningamál því að ekki er deilt um meðferð á vörnum gegn henni.
Nú, þegar Covid-umsátursástandið er að baki, mun framganga Svandísar Svavarsdóttur í heilbrigðisráðuneytinu verða Vinstri grænum þung í skauti. Ágreiningsmálum á hennar málasviði fjölgar stöðugt. Má þar nefna skimunarklúðrið, deilur við Krabbameinsfélag Íslands, nú síðast ágreining við SÁÁ og átök við sérfræðilækna svo eitthvað sé nefnt.
Með Katrínu illa laskaða eftir þá niðurlægingu sem hún mátti þola í þinginu undir lokin og Svandísi í illdeilum við stóra hópa þarf ekki að gera ráð fyrir að VG fái góða kosningu í haust. Flokkurinn gæti endað í eins stafs prósentutölu með sex eða sjö þingmenn í stað ellefu í síðustu kosningum. Ekki þyrfti þá að gera ráð fyrir flokknum í næstu ríkisstjórn. Hvað gerir Katrín þá?
Hermt er að hún hafi leitað eftir áhugaverðum stöðum hjá Sameinuðu þjóðunum, gjarnan hjá UNESCO í París. Virðingarstaða í útlöndum næstu árin yrði kjörin fyrir hana til að búa sig undir að sækjast eftir embætti forseta Íslands þegar Guðni lætur af embætti eftir sjö ár, en hann hefur afdráttarlaust lýst því yfir að hann hyggist ekki sitja lengur en tólf ár.
Katrín gæti hæglega fengið góðan stuðning í forsetaframboði ef hún hyrfi fljótlega úr argaþrasi stjórnmálanna og hlýtur í raun að teljast líkleg sem næsti forseti Íslands haldi hún rétt á spilunum. En hver gæti þá tekið við VG? Ekki þarf að leita langt yfir skammt. Svandís Svavarsdóttir er eina manneskjan í flokknum sem hefur stjórnmálareynslu til að takast á við slíkt leiðtogahlutverk. Ekki skortir hana sjálfstraustið. Formennska í VG yrði draumastaða fyrir hana.
Pólitískir andstæðingar VG deila þeim draumi með Svandísi og geta vart hugsað sér heppilegri andstæðing en hana.
- Ólafur Arnarson