Það er fallegt þegar stjórnmálamenn hrósa þeim sem eiga að teljast keppinautar eða andstæðingar þeirra í stjórnmálum. Það lýsir ekki bara örlæti heldur líka getu til að koma sér upp úr þeim pólitísku skotgröfum sem stjórnmálin eru svo óþægilega full af.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hrósaði á dögunum þingmönnum Pírata og sagði þá búa yfir ýmsum góðum kostum en tók um leið fram að hann deildi ekki öllu í sýn þeirra.
Engin ástæða er til að fólk sé stöðugt að deila sömu sýn. Sá sem ætlast til þess er fastur í þröngsýni. Hann þykist vita hvað er rétt og satt og leyfir ekki frávik frá því. Það er fáránlegt að dæma fólk eftir stjórnmálaskoðunum þess, nema viðkomandi sé alræmdur fasisti sem ætíð gengur rangan veg.
Alltaf er nokkuð vandræðalegt að hlusta á stjórnmálamenn segja: Við Sjálfstæðismenn – Við í Samfylkingunni – Við Framsóknarmenn og svo framvegis. Það er dálítið eins og meðlimur í sértrúarflokki sé að tala. Einstaklingur sem aldrei lætur hvarfla að sér að efast um málstaðinn heldur fylgir fyrir fram gefinni línu af sannri sannfæringu. Það getur ekki verið hollt.
Það er ekkert óskaplega langt síðan þingmaður, gamall í hettunni, kvartaði undan því að andinn á Alþingi væri svo slæmur að ekki hvarflaði að þingmönnum að setjast til borðs í hádegishléi með pólitískum andstæðingum. Slíkt hefði hins vegar verið mikið sport á árum áður og úr hefðu orðið hinir líflegustu matmálstímar.
Flokkshollusta blindar fólk allt of oft. Sjálfstæðismenn froðufella margir hverjir í hvert sinn sem Dagur B. Eggertsson sést opinberlega, enda er hann í þeirra huga maðurinn sem hefur sett sér það markmið að eyðileggja Reykjavík, og vill auk þess draga þá út úr einkabílnum og henda þeim upp í strætó. Sem er fádæma ósvífið því allir vita að sómakær Sjálfstæðismaður getur alls ekki látið sjá sig í strætó.
Vinstri menn geta svo enn ekki á heilum sér tekið vegna tilveru Davíðs Oddssonar. Í hvert sinn sem ögrandi, hvöss og ósvífin nafnlaus skrif birtast í Morgunblaðinu, hvort sem um er að ræða Staksteina eða Reykjavíkurbréf, þá hrynur taugakerfi þessa fólks. Eina ráð þess er að fara hamförum og fordæma skrifin, án þess að rýna í þau. Enda þarf þess ekki. Það liggur í hlutarins eðli að skoðanir sem þar eru settar fram hljóta að vera rangar af því að Davíð Oddsson getur ekki nokkurn tíma haft á réttu að standa.
Nú má vel vera að í einhverjum tilvikum hafi einhver annar en Davíð skrifað viðkomandi pistla og greinar, en að því er aldrei hugað – sem hlýtur að vera mjög frústrerandi fyrir þann sem skrifað hefur en fær aldrei kredit. Hann er orðinn Davíð Oddsson án þess að vera það. Mjög súrrealískt hlutskipti.
Hvernig væri nú að vinstri menn kæmu einn daginn duglega á óvart með því að hrósa Davíð Oddssyni? Eins og allir hlýtur hann stundum að hafa á réttu að standa. Varla er hann Óvinurinn sjálfur holdi klæddur. Eða hvað?
Leiðari Fréttablaðsins 7. ágúst 2020.