Óvinsældir ríkisstjórnarinnar vaxa hratt. strax í mótbyr

Skoðanakönnun MMR sem gerð var áður en Hæstiréttur dæmdi Sigríði Andersen dómsmálaráðherra brotlega við stjórnsýslulög, sýndi góðan stuðning við ríkisstjórnina eða 66%.
Í sömu könnun mældist stuðningur við ríkisstjórnarflokkana ekki nema 48%. Flokkarnir hafa þegar tapað tíunda hverjum kjósanda frá kosningunum í haust.
 
Ætla má að mjög hratt muni fjara undan stuðningi við ríkisstjórnina. Mál Sigríðar er þegar farið að valda miklu tjóni vegna rangra viðbragða. Mikil reiði hefur gripið um sig vegna málsins.
 
Dómsmálaráðherra sem Hæstiréttur dæmir sekan á auðvitað að víkja tafarlaust. Um allan hinn vestræna heim þykir það sjálfsagt. En ekki hér í bananalýðveldinu. Sigríður brást við með hroka og sagðist ekki vera sammála dómnum! Og hvað með það. Álit hennar skiptir engu máli. Hæstiréttur hefur síðasta orðið og honum er slétt sama um álit fólks.
Trúverðugleiki dómsmálaráðherra er enginn eftir að hann er orðinn ber að lögbrotum. Því hlýtur hann að víkja.
 
Viðbrögð formanns Sjálfstæðisflokksins eru einnig óviðunandi. Hann ætlar ekki að skipta um dómsmálaráðherra þrátt fyrir dóminn. Hann sýnir æðsta dómstóli landsins einnig fyrirlitningu.
 
Verst er að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ætlar ekkert að gera í málinu. Formaður vinstri grænna blessar sukkið og svínaríið sem flokkur hennar hefur gagnrýnt harkalega. Kjósendur VG eru illa sviknir og spyrja til hvers hafi verið barist.
 
Sigríðar Andersen-hneykslið mun tæta stuðning af ríkisstjórninni. Það sama mun gerast vegna mikilla vonbrigða með nýja fjárlagafrumvarpið. Margháttuð svik við kjósendur birtast þar. Ljóst er að orð og efndir fara engan veginn saman.
 
Ríkisstjórn Geirs Haarde 2007 hafði gríðarlegan stuðning í byrjun. Hún féll.
 
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði mikinn stuðning í upphafi en endaði með 26% stuðning og féll.
 
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði góðan byr í fyrstu en varð fljótt gríðarlega óvinsæl en hékk út kjörtímabilið rúin trausti, komin niður í 31% stuðning samkvæmt skoðanakönnunum. Stjórnin kolféll svo í kosningunum.
 
Engin ástæða er til að ætla að núverandi ríkisstjórn muni vegna betur miðað við þau afdrifaríku mistök
sem hafa verið gerð á fyrstu þremur vikunum.
 
Stuðningur við ríkisstjórnina mun fljótt fara niður í þriðjung með þessu áframhaldi.
 
Rtá.