Þó ríkisstjórnin mælist með afar lélegt fylgi í öllum skoðanakönnunum þá á Náttfari samt ekki von á því að hún falli á næstunni. Hann spáir því að hún hangi fram á mitt ár 2019 en falli þá.
Megingæfa núverandi ríkisstjórnar er afspyrnuslök stjórnarandstaða. Framsókn er jafnvel þríklofin, Píratar eru í ruglinu, VG dafna meðan þeir hafa sig lítt í frammi og langt er í að Samfylkingin nái vopnum sínum eftir hrunið í síðustu kosningum.
Þessir flokkar eiga ekkert erindi í landsstjórnina að svo stöddu og því er núverandi ríkisstjórn skársti kosturinn.
Rekja má óvinsældir núverandi stjórnarflokka til formanna flokkanna þriggja öðru fremur. Þeim hafa verið mislagðar hendur meðan öðrum ráðherrum hefur gengið betur.
Bjarni Benediktsson þykir fjarlægur en þó fyrst og fremst hrokafullur þegar hann tjáir sig um menn og málefni. Svo virðist sem forsætisráðherratignin stigi honum til höfuðs.
Benedikt Jóhannesson hefur svikið flokk sinn um grundvallarmál flokksins og einnig svikið skýr kosningaloforð eins og áform varðandi hækkun VSK á ferðaþjónustu eru dæmi um. Ekki er að sjá að þingið muni hleypa hækkuninni í gegn að óbreyttu. Þá þykir sýnt að hann skorti pólitíska næmni. Hann er eins og embættismaður, exel-karl frekar en stjórnmálamaður.
Óttar Proppé hefur týnst eftir að hann varð ráðherra. Hann virðist vera hræddur og hikandi, alltaf í vörn en aldrei í sókn. Svo hefur hann nánast orðið fyrir einelti bæði frá vinstri og hægri. Hann ræður ekkert við að verja sig fyrir árásum sem er leitt því Óttar vill vel.
Allir þessir þrír flokkar þyrftu að skipta um formenn. Með því gæti ríkisstjórnin öðlast nýtt upphaf og góða viðspyrnu.
Þó einhver ágreiningur sé nú um einstök mál innan stjórnarflokkanna, þá er engin að fara að slíta stjórnarsamstarfinu. Til þess eru allt of margir uppteknir við að ylja sér við kjötkatlana. Þeim þykir svo gaman að vera við völd, hvort heldur er við ríkisstjórnarborðið eða í margs konar nefndum og ráðum - að ekki sé minnst á alla ferðaklúbbana sem þingmenn skemmta sér í. Það vill enginn missa af þessu.
Kjörtímabilinu ætti að ljúka vorið 2020.
En þegar kemur fram á mitt ár 2019, þá mun Viðreisn fara að reyna að hysja upp um sig varðandi ESB-málið sem Benedikt fórnaði fyrir stól fjármálaráðherra. Þegar Viðreisn og Björt framtíð fara að knýja á varðandi ESB, þá mun Sjálfstæðisflokkurinn slíta stjórnarsamstarfinu. En ekki fyrr.
Þessi ríkisstjórn mun því sitja við völd í rúm tvö ár enn.
rtá.