Litlar sem engar líkur eru á því að verðfall á íbúðamarkaði sé yfirvofandi, þótt greina megi mjög aukið framboð af húseignum hér á landi í sumarlok, en framhald virðist ætla að verða á því í haust og vetur.
Miklu fremur virðist fasteignamarkaðurinn vera að leita jafnvægis eftir fordæmalausa uppsveiflu síðasta vetrar þegar spá Arion um tuga prósenta verðhækkun á húseignum á næstu mánuðum gekk eftir á örstuttum tíma.
Þetta er mat Konráðs Guðjónssonar, hagfræðings hjá greiningadeild Arion banka, sem er gestur Sigmundar Ernis í þættinum Heimilið á Hringbraut í kvöld. Þar fer hann yfir markaðinn eins og hann blasir við í dag og kíkir inn í framtíðina.
Hann metur það svo að meiri líkur séu á auknu atvinnuleysi en verðfalli eigna á næstu misserum; uppbyggingin sé að róast og mesta þenslan að baki og jafnvel megi greina bakslag í uppbyggingunni í ferðamennskunni sem ef til vill dragi úr atvinnumöguleikum hér á landi þegar líða tekur á veturinn.
Heimilið byrjar klukkan 20:00 í kvöld.