Við vorum saman í sænskunámi, hann heitir Abdullah og hann er jafngamall mér, giftur og þau hjónin eiga fjórar dætur sem allar eru á grunnskólaaldri. Fyrir stríð bjó hann í góðri íbúð í miðborg Damaskus, hann er menntaður viðskiptafræðingur og vann sem slíkur. Á hverju ári fór fjölskyldan í ferðalag til Evrópu. Lífið var þægilegt.
Síðan braust út stríð í landinu. Hann óttaðist um fjölskyldu sína svo að hann seldi allt og fór. Það sem að hann fékk fyrir eignirnar var langt undir því sem að hann hafði borgað fyrir þær. Hann fór fyrst til Tyrklands. Þar kom hann fjölskyldunni fyrir og hélt svo áfram til Svíþjóðar. Valið stóð á milli Svíþjóðar og Þýskalands, önnur lönd höfðu sýnt það í verki að fólk eins og hann var ekki velkomið þangað.
Þegar þú kemur sem flóttamaður til einhvers lands tekur við langur biðtími. Á þeim tíma býrðu við kröpp kjör, mátt ekki vinna og ekki fara í skóla. Það er erfiður tími. Þetta er ástæðan fyrir að hann skildi konu sína og dætur eftir í Tyrklandi. Lífið þar var þó engin dans á rósum en þar gátu þær búið ódýrt meðan að þær biðu.
Þegar hann var búinn að vera í næstum því eitt og hálft ár í Svíþjóð fékk hann dvalarleyfi og gat farið að læra sænsku. Þá sendi hann eftir konu sinni og dætrum. Stúlkurnar gátu strax byrjað í skóla og konan hans farið í sænskunám. Að læra tungumálið er forsenda þess að geta byrjað nýtt líf í nýju landi, án þess áttu enga möguleika.
Hann sagði mér að hann hafi ekki skilið það þegar stríðið hófst. Það hafi ekki verið nein átök á milli trúarhópa, í Damaskus eru sem dæmi margar kirkjur. Eftir því sem tíminn hefur liðið sagðist hann hafa sannfærst æ meir um að stríðið hafi komið utanfrá. Hann sagði að býsna mörg lönd í heiminum bæru ábyrgð á þessu stríði, almenningur í Sýrlandi geri það hins vegar ekki.
Hann er þakklátur Svíum fyrir að fá tækifæri til að búa hér, dætrum hans gengur mjög vel í skólanum, það tók þær ekki nema nokkra mánuði að læra sænsku. Hann er vongóður um að þær geti átt gott líf hér í framtíðinni. Hann sér enga framtíð í Sýrlandi fyrir þær, flest menntað fólk sé flúið, það sé búið að rústa landinu. Hann saknar þó Sýrlands ákaflega, þar átti hann gott líf. Það er ekki auðvelt að hefja nýtt líf í landi sem er með allt aðra veðráttu og menningu.
Við sátum oft saman í skólanum. Hann vildi æfa sig í að tala sænsku, það eru ekki mörg tækifæri til þess, hann umgengst mest Sýrlendinga, ég var sá eini í bekknum sem var það ekki. Innkoma flóttamanna dugir bara rétt fyrir mat og nauðsynjum, að fara út á meðal fólks kostar alltaf peninga, þeir eru ekki til. En hann er greinilega mjög skarpur, maður heyrði það á spurningum hans til kennarans.
Eftir að hafa hlustað á hann varð mér hugsað til þess að Ísland var eitt af þeim löndum sem að studdi innrásina í Írak. Nú í dag er það almennt viðurkennt jafnvel að æðstu mönnum að stríðið í Sýrlandi megi að miklu leiti rekja til hvernig til tókst í Írak. Hvað í ósköpunum erum við eiginlega búin að gera þessu fólki?