Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, birtir um helgina stórmerkilega grein í endurnýjuðu og endurbættu DV um jöfnun kosningaréttar á Íslandi.
Í grein Björns Jóns eru birtar tölur sem sýna að kjósendur í Suðvestur kjördæmi hafa einungis hálft atkvæði á við kjósendur í Norðvestur og Norðaustur kjördæmum.
Á bak við hvern þingmann í SV kjördæmi voru 5.350 atkvæði í síðustu kosningum en aðeins 2.690 atkvæði í báðum norðurkjördæmunum. Væntanlega hefur þetta hlutfall ekki lagast frá haustinu 2017, nema síður sé.
Þetta ranglæti er orðið gjörsamlega óþolandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins enda er ótækt að braskað sé með heilagan rétt kjósenda á þann hátt að verðfella atkvæði sumra um allt að 50 prósent.
Þessu óréttlæti verður að linna. Besta leiðin til þess er að breyta landinu í eitt kjördæmi. Þá verður vægi allra atkvæða jafnt, nákvæmlega eins!
Í forsetakosningum vega atkvæði allra jafnt. Sama gildir í sveitarstjórnum. Því ekki einnig þegar kosið er til Alþingis?
Þeir stjórnmàlaflokkar sem taka forystu í þessu máli eru líklegir til að afla mikils viðbótarfylgis í öllum kjördæmum nema NV og NA kjördæmum.
Viðreisn, Samfylking og Píratar: Ekki er eftir neinu að bíða!