Sú skemmtilega hefð tengd Öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi er að hengja öskupoka á fólk á Öskudag. Talið er að rekja megi upphaf hefðarinnar til kaþólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sagt er að menn hafi sótt í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið.
Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri átjándu öld en er sennilega eldri. Þannig var að pokasiðurinn skiptist lengi vel í tvennt eftir kynjum þannig að konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Síðar breyttist siðurinn þannig að það voru fyrst og fremst börn hengdu öskudagspoka á aðra og þá sérstaklega fullorðna og kúnstin var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því, það skipti aðalmáli. Innihald pokans breyttist líka og gátu þeir verið með litlum gjöfum eða miðum með skilaboðum á.
Því miður hefur þessi siður hefur nær alveg horfið og við hefur tekið sá siður að börn gangi í grímubúningum í verslanir, fyrirtæki og stofnanir og syngi til að fá sælgæti eða annað góðgæti fyrir sönginn. Sá siður er sóttur til bandarísku hrekkjavöku hefðarinnar sem einnig er farin að setja mark sitt hér á landi í októbermánuði eða á sama tíma og hrekkjavakan er haldin í Bandaríkjunum.
Væri ekki gaman að sjá þennan sið endurvakinn og fjölskyldur myndu eiga saman gæðastundir í Góunni við að sauma og nostra við öskudagspoka í öllum regnbogans litum og gerðum og festa í þá títuprjóna sem hægt er að beygja? Nauðsynlegt er að hafa títuprjóna sem hægt er að beygja í öskudagspokunum til þess að hægt sé að næla þá í fatnað. Minnsta sem við getum þó gert er að fræða og upplýsa ungu kynslóðina sem og komandi kynslóðir um sið sem þennan og halda siðum og venjum íslensku þjóðarinnar á lofti.