Ekki verður ríkisstjórnin sökuð um að hafa setið með hendur í skauti á síðasta ríkisstjórnarfundinum fyrir þingkosningarnar á laugardaginn. Ekki aldeilis. Ræddur var ríkisstyrkur til Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum vegna tekjutaps ÍBV þar sem aflýsa þurfti Þjóðhátíð bæði í fyrra og í ár vegna Covid-19 faraldursins. Í samtali við Vísi sagði fjármálaráðherra: „Við vorum að ræða það að við ættum eftir að koma með úrræði fyrir þá sem hugðu á stórhátíðahöld um verslunarmannahelgi.“
Ríkisstjórnin telur sem sagt að hún sé ábyrg fyrir því, gagnvart Eyjamönnum, að samkomutakmarkanir vegna sóttvarna skyldu koma í veg fyrir fjáröflun þeirra. Í öllu falli er einvörðungu verið að skoða styrki vegna þeirra sem ekki gátu haldið fjölmenna hátíð um verslunarmannahelgina. Meðal annarra hátíða sem aflýsa þurfti um verslunarmannahelgina eru: Innipúkinn í miðbæ Reykjavíkur, Neistaflug á Neskaupstað, Unglingamót UMFÍ, Síldarævintýri á Siglufirði og Ein með öllu á Akureyri. Ríkisstjórnin hefur ekki teljandi áhyggjur af þeim, en þó kemur til greina að aðstandendur þessara hátíða fái að sækja um styrk í sjóð sem samt verður aðallega fyrir Þjóðhátíðina í Eyjum.
Hvað með allar hinar hátíðirnar, sem þurfti að aflýsa eða banna fólki að koma á vegna samkomutakmarkana? Hvað með Aldrei fór ég suður á Ísafirði? Eða Sjóarann síkáta í Grindavík? Eða Bíladaga á Akureyri? Eða Humarhátíðina á Höfn? Eða Sumar á Selfossi? Eða Danska daga í Stykkishólmi? Eða Ljósanótt í Reykjanesbæ? Eða Fiskidaginn mikla á Dalvík? Eða Mærudaga á Húsavík? Tugum fjölmennra útihátíða hefur verið aflýst eða nánast aflýst, og mörgum þeirra tvö ár í röð, vegna Covid-19. Fæstar þeirra eru um verslunarmannahelgina og allar nema ein eru annars staðar en í Vestmannaeyjum.
Hvernig stendur á því að fjármálaráðherra, og raunar ríkisstjórnin í heild, hleypur upp til handa og fóta til að bæta Vestmannaeyingum fjárhagslegt tap vegna samkomutakmarkana en ekki öðrum? Er hugsanlegt að þar ráði einhverju sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er í sárum og tapaði meirihluta sínum í sveitarstjórnarkosningunum 2018? Ætlar formaður flokksins að leggja sín lóð á vogarskálarnir til að flokkurinn endurheimti meirihluta sinn í bæjarstjórn Vestmannaeyja í kosningunum næsta sumar? Láti það verða sitt síðasta verk sem fjármálaráðherra?
- Ólafur Arnarson