Drukknandi maður grípur hvaða hálmstrá sem er í þeirri von að komast af. Þannig er nú komið fyrir Sigurði Inga og Framsóknarflokknum. Eftir að \"svissneska leiðin\" sprakk í andlitið á þeim fyrir viku er nú gripið til nýrra örþrifaráða.
Og aftur ræðst Sigurður Ingi gegn hagsmunum almennings. Hann kaupir auglýsingu á ja.is með uppspuna um rekstrarkostnað lífeyrissjóða landsmanna. Sennilega grípur hann töluna sem formaður VR hefur aftur og aftur slengt fram í umræðuna en engin rök fært fyrir.
Popúlistar sækja í að efla fylgi sitt með því að búa til óvin og freista þess að skapa ótta með kjósendum. Nú hefur Sigurður Ingi ákveðið að lífeyrissjóðir landsmanna séu sá óvinur sem fólk þurfi helst að óttast og notar til þess uppspuna frá formanni VR! Líklega hefur hann ekki enn frétt af því að lífeyrissjóðirnir greiða sjóðfélögum sínum yfir hundrað milljarða á ári í lífeyri og sú tala hækkar á hverju ári.
Og líklega hefur Sigurður Ingi gleymt því að það var fyrir tilstilli lífeyrissjóðanna að íslenskt atvinnulíf náði styrk sínum eftir bankahrunið og tókst með því að koma í veg fyrir það þjóðarböl sem fylgt hefði útbreiddu fjöldaatvinnuleysi sem sannarlega stefndi í haustið 2008. Skyldi þjóðin fá í andlitið fleiri skítabombur frá Sigurði Inga og Lilju í örvæntingu þeirra viku fyrir kjördag?
Rtá