Össur Skarphéðinsson er að detta út af þingi eftir aldarfjórðungs feril þar.
Einnig eru talsverðar líkur á að Samfylkingin nái ekki 5% fylgi í komandi kosningum og nái engum fulltrúa inn á Alþingi.
Dagfari hefur bent á að Sighvatur Björgvinsson, einn helsti leiðtogi jafnaðarmanna á síðari áratugum, hefur lýst því yfir að Samfylkingin hafi lokið hlutverki sínu. Kjósendur virðast vera á sama máli ef marka má nýjustu skoðanakannanir sem mæla Samfylkinguna við pólitískar dauðans dyr, nærri því að þurrkast út af þingi.
Örvæntingu Össurar birtist í óyfirveguðum skrifum hans á Facebook. Hann er ekki að bæta stöðu sína eða flokksins með þeim. Gamli töffarinn heldur ekki lengur \"kúlinu\" og sýnist vera farinn á taugum.
Samkvæmt upplýsingum Dagfara er Össur hugmyndasmiðurinn á bak við tilboð Pírata til hinna flokkanna um vinstri stjórn fyrir kosningar. Össur og Birgitta eru nánir félagar og hermt er að Össur reyni mikið að stýra Birgittu.
Alla vega hafði hún varla náð að stynja upp tilboði sínu um síðustu helgi þegar Samfylkingin var búin að samþykkja.
Í skrifum sínum talar Össur um klemmda stöðu keppinauta. Það er óneitanlega vandræðalegt tal hjá stjórnmálamanni sem trúlega verður með enga stöðu eftir nokkra daga.
Dagfari hvetur fólk til að hafa ekki áhyggjur af Össuri þó komið sé að pólitískum leiðarlokum hjá bæði honum og Samfylkingunni.
Össur verður búinn að koma sér í sendiherraembætti fyrr en varir.