Örvænting Friðjóns og þekkingarleysi

Friðjón Friðjónsson sem tekur þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi er fullur örvæntingar og finnur að flokksmenn sýna honum takmarkaðan áhuga. Hann gerir nú tilraun til að vekja á sér athygli með vanhugsuðu útspili varðandi íþróttamannvirki í Laugardal. Endurbætur á Laugardalsvelli og byggingu nýrrar íþróttahallar hafa verið á dagskrá síðustu fimm árin á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með völd í ríkisstjórninni og meðal annars ráðið ríkjum í fjármálaráðuneytinu.

Borgin hefur þegar tekið frá lóð undir nýja íþróttahöll við hlið þeirrar sem þjónað hefur landsmönnum í tæp sextíu ár. Margar nefndir hafa starfað vegna þessara mála þar sem fulltrúar ríkis og borgar hafa haft mest að segja. Framkvæmdirnar sem hér um ræðir munu að líkindum kosta skattgreiðendur marga tugi milljarða, trúlega á bilinu 40 til 60 milljarða þegar allt er talið.

Borgin hefur fyllilega staðið sína pligt varðandi útvegun lóðar fyrir nýja höll og borgarstjóri hefur ítrekað lýst því yfir að þegar hafi tveir milljarðar króna verið eyrnamerktir vegna undirbúnings málsins. Um er að ræða þjóðarleikvang og þjóðarhöll fyrir boltaíþróttir. Vel að merkja – þjóðar en ekki bara borgar.

Í ljósi þessa er mjög athyglisvert að ríkið hefur ekki tekið frá eina einustu krónu vegna þessara risaverkefna. Í fjárhagsáætlun ríkisins til næstu fimm ára er ekki minnst einu orði á fyrirhugaðar tugmilljarðaframkvæmdir ríkis og borgar í Laugardal. Engum fjármunum er ráðstafað til þessa verkefnis af hálfu ríkisins.

Málið strandar því ekki á borginni og farsælum borgarstjóra. Það strandar á ríkisstjórninni og fjármálaráðherra hennar, vini Friðjóns Friðjónssonar. Hann ætti því að líta sér nær og atast í Bjarna Ben vegna þess að fjármunir til þessara verkefna hafa ekki verið tryggðir. Hæg ættu heimatökin að vera fyrir Friðjón.

Baráttan um þau sex sæti í borgarstjórn sem skoðanakannanir spá nú Sjálfstæðisflokknum er blóðug. Friðjón reynir í örvæntingu að vekja á sér athygli með innstæðulausum árásum á borgarstjóra vegna þessa máls. Vanþekking Friðjóns blasir við en hann reynir samt að fara leið skítkasts eins og minnihlutinn hefur stundað allt þetta kjörtímabil með svo lélegum árangri að helstu leiðtogar minnihlutans hafa þegar lagt á flótta, þau Eyþór Arnalds og Vigdís Hauksdóttir.

Hildur Björnsdóttir, sem flestir telja að muni leiða lista Sjálfstæðisflokksins í vor, valdi aðrar leiðir í stjórnarandstöðunni á yfirstandandi kjörtímabili. Hún hreifst ekki af endalausum niðurrifsmálflutningi Eyþórs og Vigdísar. Hildur hefur stutt stefnu meirihlutans varðandi flugvöllinn, borgarlínuna og Laugaveginn, svo dæmi séu nefnd. Hún hefur nú látið það boð út ganga að hún vilji heyja málefnalega kosningabaráttu en ekki vera með misheppnað niðurrifsröfl sem hefur stórskaðað Sjálfstæðisflokkinn.

Hildur leggur þunga árherslu á að fá nýtt, ferskt og ungt fólk með sér í baráttuna en ekki gamalt svekkt niðurrifslið. Það getur því varla glatt hana mikið að eiga á hættu að fulltrúar innihaldslauss nöldurs á borð við Friðjón og suma aðra frambjóðendur nái miklum árangri í prófkjörinu – eins og gæti alveg gerst.

Víst er að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í borginni hljóta að vona að Friðjón og fleiri fulltrúar fortíðar og nesjamennsku nái inn í einhver af sex efstu sætunum í komandi prófkjöri flokksins um næstu helgi. Heppilegri andstæðingar í kosningum en úrillir niðurrifsseggir, gjörsneyddir kjörþokka, eru vandfundnir.

- Ólafur Arnarson