Páll Magnússon er af rokksólid eðalkrötum kominn - en villtist á aðra jötu. Þann dreng má lengi gráta. Hann er kjarkmaður. Tók þátt í uppreisninni gegn Elliða í Vestmannaeyjum sem fleytti Írisi Róbertsdóttur í hásæti Eyjamanna. Hann stóð uppi í hárinu gegn ritstjóra Morgunblaðsins og það þora ekki margir íhaldsmenn.
Það þarf líka kjark til að skipta um skoðun í stórum málum. Það hefur komið fyrir mig - en því miður ekki oft. Páll er einn af fáum upphaflegu andstæðingum orkupakkaræfilsins sem hefur haft kjark, og vitsmuni, til að skoða rökin með og á móti. Flestir lepja bara upp meltuna hráa úr Guðna Ágústssyni og Styrmi Gunnarssyni.
Páli Magnússyni fórst hins vegar einsog nafna hans Páli postula á leiðinni til Damaskus. Hann sá villu síns vegar og skipti um skoðun. Hvort hann fær “eilíft hús á himnum” einsog nafni hans postulinn lofaði sanntrúuðum í síðara bréfi sínu til Kórintumanna er óvíst. Alla vega á þó þingmaðurinn virðingu skilda fyrir að hafa skipt um skoðun. Það er ekki auðvelt í því úlfagreni sem eru hans “jarðnesku tjaldbúðir” einsog postulinn orðaði það löngu fyrir daga Sjálfstæðisflokksins.