Orka energy skráð í kínaferð illuga

Fimm fulltrúar Orku Energy voru í sendinefnd Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra í opinberri heimsókn hans til Kína í mars á þessu ári. Fulltrúarnir fimm voru skráðir sem formlegir fulltrúar í nefndinni af hálfu ráðuneytisins og sátu tvo fundi Illuga með kínverskum viðskiptamönnum og einnig veislur með ráðamönnum. Hringbraut hefur undir höndum gögn sem staðfesta þetta, en ráðherra hefur sjálfur sagt fulltrúa Orku Energy hafa verið stadda í Kína fyrir tilviljun og að þátttaka þeirra hafi verð lítilvæg í ferðinni.


Illugi er fyrrverandi starfsmaður Orku Energy.


Gögnin sem Hringbraut hefur undir höndum - og hægt er að skoða neðan við fréttina - sýna ótvírætt að fulltrúar Orku Energy voru fullgildir meðlimir í sendinefnd menntamálaráðherra til Kína. Þeir eru skráðir sem hluti af viðskiptasendinefndinni í ferðinni í uppfærðri dagskrá hennar sem gefin var út fjórum dögum fyrir brottför sendinefndarinnar til Kína. Orð ráðherrans um hlut Orku Energy í fundinum ganga því þvert á þau gögn sem hér um ræðir. 


Illugi Gunnarsson hefur legið undir ámæli fyrir að hafa hyglað eigendum Orku Energy í opinberri ferð á vegum ríkisins, en hann starfaði sem ráðgjafi fyrir það fyrirtæki þegar hann gerði hlé á þingstörfum sínum í upphafi síðasta kjörtímabils vegna tengsla sinna við Sjóð 9 í Glitni sem þá var til rannsóknar. Einnig hefur komið fram á síðustu dögum að hann seldi Hauki Harðarsyni stjórnarformanni  Orku Energy íbúð sína á Ránargötu og leigir hana nú af sama manni.


Dagskrá heimsóknarinnar má sjá hér: