Orðuveitingar forsetaembættisins vekja sífellt meiri furðu. Nú er svo komið að það heyrir til undantekninga ef öðrum en opinberum starfsmönnum eru veittar orður. Ekkert er athugavert við það að opinberir embættismenn, listamenn og aðrir sem hafa unnið umtalsverð afrek fái orður. En það er einkennilegt ef það heyri til undantekninga að orður hlotnist fáum sem ekki hafa sinnt opinberum störfum. Þá er tilgangurinn með þessu ekki að nást. Þá missa orðuveitingar marks og kalla yfir vaxandi gagnrýni og jafnvel hneykslun.
Það getur ekki verið tilgangurinn með heiðursveitingum af þessu tagi að hengja orður á fólk fyrir að hafa mætt samviskusamlega til vinnu sinnar um árabil.
Almennar orðuveitingar forsetaembættisins fara fram á nýjársdag og 17. júní ár hvert. Þess á milli eru veittar orður sem tengjast sérstökum atburðum, ekki síst heimsóknum erlendra aðila sem ástæða þykir til að heiðra.
Sérstök orðunefnd starfar og veitir forseta ráðgjöf en hann hefur síðasta orðið og ber titilinn „stórmeistari“ Fálkaorðunnar. Þeir sem gerst vita, telja að forseti ráði því sem hann vill ráða og ýti hugmyndum sínum á kurteislegan en ákveðinn hátt að formanni orðunefndar sem ávalt fer að óskum forseta. Formaður nefndarinnar en nú Kristín Ingólfsdóttir fyrrum rektor Háskóla Íslands.
Að þessu sinni veitti forseti fjórtán Fálkaorður. Við lauslega athugun virðast níu af orðuhöfum vera núverandi eða fyrrverandi opinberir starfsmenn. Varðandi suma orðuhafana er vandséð fyrir hvaða „afrek“ verið er að heiðra þá, nema það teljist til „afreka“ sem þarf að heiðra fólk fyrir að stunda atvinnu í opinberri þjónustu.
Það skal þó tekið skýrt fram hér að meðal orðuþeganna að þessu sinni eru aðilar sem hljóta að teljast vel að heiðrinum komnir.
Annað hvort þarf að endurmeta orðuveitingar hér á landi frá grunni og skilgreina þær þannig að verið sé að heiðra fólk fyrir raunveruleg afrek, hvar sem þau kunna að vera unnin, eða þá hreinlega hætta þessu umstangi sem margir telja óþarfa pjatt og prjál smáþjóðar.