Mikið vildi ég að það yrði lögbundið í lífi Íslendinga að við yrðum öll á einhverjum tímapunkti skikkuð til að starfa um hríð bæði hjá einkaframtakinu og hinu opinbera. Þar með gætum við kynnt okkur kosti og galla beggja „kerfa“ og gætum nýtt þann lærdóm til markvissari starfa og skilnings í framtíðinni – fyrir samborgarana.
Auðvitað er engin djúp alvara að baki svona hugmyndar að skylda fólk til starfa í báðum geirum. En hugmyndin er þó ef til vill þess virði að segja fleiri orð um hana:
Nú háttar þannig til að ég hef bæði starfað hjá ríkinu og einkaframtakinu. Þau ár eru reyndar mun fleiri sem ég á að baki með einkaframtakinu. Nógu lengi hef ég þó unnið jafnt hjá ríkinu sem og með ýmsum frumkvöðlum í atvinnurekstri til að vita að sum okkar eru flugmóðurskip sem tekur langan tíma að snúa. Aðrir kjósa meiri hraða, meiri afköst, stundum á kostnað nákvæmni. Sjálfur kýs ég snerpuna. Einkaframtakið á sumsé betur við minn persónuleika.
Það þýðir þó alls ekki að ég virði ekki störf góðra opinberra starfsmanna á móts við störf góðra starfsmanna hjá einkaframtakinu. Mörgu úrvalsfólki hef ég kynnst í báðum geirum. Flestir leggja sig daglega í líma við að vinna vel og þjóna öðrum, en vissulega hefur lítið framlegð Íslendinga á atvinnumarkaði þó vakið spurningar. Stundum verður ekki séð að augljóst samband sé milli langra vinnudaga og afkasta hér á landi.
Svo höfum við flest hver kynnst einhverjum letihaugum í vinnu. Hjá einkaframtakinu staldra þeir stutt við að jafnaði, þar eru þeir hreinlega reknir. Hjá ríkinu hafa hinir værukæru stundum meira svigrúm. Ég hef upplifað umfangsmikinn mun á töku fólks á veikindadögum í þessum tveimur geirum. Mín reynsla er að mun fleiri opinberir starfsmenn nýti sér reglulega þann rétt sinn að sitja heima í veikindum. Maður hefur undrast að flensur leggist þyngra á ríkistarfsmenn en hina hjá einkaframtakinu. En hjá ríkinu er líka sagt ábyrgt að sitja heima og smita ekki vinnufélagana.
Ameríkanar afgreiða reyndar þessa umræðu með lyfjum. Hættan á að einn vinnufélagi smiti annan af flensu lýtur í gras gagnvart þeirri ábyrgð starfsmanna að lágmarka eigin flensuáhrif með því að skjótast út í búð og slá á flensuna með lyfjagjöf. Sum lyfin sem þeir heimila þar westra eru bönnuð hér, a.m.k. án tilvísunar. Atvinnuheimur Bandaríkjamanna er harður en hann er óneitanlega skilvirkur. Hér leggjast nokkrir í rúmið um leið og örlar á hálsbólgu. Eða hanga fúlir á facebook. En maður hefur líka upplifað svo mikla vinnuhörku hjá einkaframtakinu að sá sem var sannarlega fárveikur missti vinnuna án aðvörunar þegar hann gat ekki mætt einn daginn. Einnig eru ótal dæmi um að ófrískar konur séu fremur látnar fjúka í einkageiranum sem bitnar mjög á jafnrétti kynjanna. Færri dæmi eru um þetta hjá ríkinu en í einkageiranum, enda réttindi opinberra starfsmanna að jafnaði meiri. Þetta er því alls ekki svarthvít umræða og á það verður einnig að minnast að ábyrgð ríkisstarfsmanna er oft meiri en hjá starfsmönnum einkaframtaksins. Fyrri hópurinn er oft bundinn af ströngum reglum. Flestir eru sammála um að það sé ágætt. Annar hópurinn á að þjóna almannahagsmunum umfram allt annað. Misjafnt er hvort hinn hópurinn hefur svipaðar skyldur.
Hafandi fabúlerað um menningarmun starfsmanna í þessum tveimur heimum er í raun bara eitt sem ég þoli ekki - og kemur þá að helsta hvata þessa pistils. Ég þoli ekki þegar starfsfólk hins opinbera nennir ekki að svara í síma eða svara póstum þegar maður þarf á þjónustu fólksins að halda. Við í einkageiranum höfum með góðu eða illu mörg hver vanist að svara skilaboðum og símtölum nánast allan sólahringinn, sjö daga í viku. Við gerum það vegna þess að við lítum á það sem skyldu okkar og það eykur líka samkeppnishæfi okkar á atvinnumarkaði. Ef eitthvað er, ættu skyldur opinberra starfsmanna þó að vera meiri en að jafnaði hjá einkaframtakinu.
Og ef það er þannig, hvernig stendur þá á því að í gær hringdi ég tvisvar í stofnun sem kallast Markaðsstofa Norðurlands. Hringdi með nokkru millibili á bilinu frá klukkan 10-11 að morgni en það hringdi út í bæði skiptin. Ég ætlaði að koma á framfæri fyrirspurn vegna fréttaskýringar sem ég var að skrifa og þoldi illa bið. Allt kom fyrir ekki. Enginn svaraði. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem ég lendi í sambandsleysi við þessa tilteknu stofnun. Þess vegna dreg ég nafn hennar hér opinberlega fram. Ætli skattfé lesenda fari ekki í að greiða laun starfsmanna þarna? Þess vegna er munur á því þegar opinberir starfsmenn svara ekki en t.d. þegar það er svo brjálað að gera á hárgreiðslustofunni sem við skiptum við að við þurfum að hringja oft til að fá pantaðan tíma.
Kannski lágu sértækar ástæður bak við að enginn svaraði í símann hjá MN, en þá ætti að vera hægt að stilla á sjálfvirkt svar sem brýnir innhringjanda til að hafa samband síðar með kurteislegri afsökunarbeiðni. Að svara ekki símanum í tvígang er algjört diss. Og arfaslök markaðsmennska einnig!
Þessi pistill snýr þó ekki að annars ágætu starfsfólki Markaðsstofu Norðurlands persónulega. Honum er fyrst og fremst ætlað að varpa upp spurningu um kerfi og spyrja í auðmýkt hvort bil ólíkra atvinnumenningarheima mætti kannski brúa. Kannski verður það hægt með því að báðir kimar taki það besta úr eigin ranni og nýti sér í störfum sínum, landi og þjóð til heilla.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í kvikunni á hringbraut.is)