Í kvöldfréttum sl. föstudag var fjallað um rjúpnaveiðar og það sem kallað var hluti af sjálfbærninámi Hallormsstaðarskóla. Fínt orð sjálfbærninám auðvitað, en það átti ekki við hér.
Fréttin kom frá Rúnari Snæ Reynissyni. Þar var sýnt hvernig vængir voru höggnir af rjúpu og hún síðan skorin og tætt í sundur. Algjört virðingarleysi við þennan fallega og skaðlausa fugl, þessa tignarlegu lífveru, sem auðgar og fegrar náttúru Íslands með fegurð sinni og líflegu korri.
Um leið sýnir RÚV í raun mikið tilfinningaleysi og virðingarleysi almennt við villt dýr, náttúru og lífríki landsins.
Börn og unglingar horfa auðvitað líka á kvöldfréttir. Þessi heiftarlega meðferð á rjúpunum gat verið eins og kennslustund í því að þetta eru „bara dýr“, í raun bara hlutir sem drepa má, mishöndla og misbjóða að vild og engan rétt eða virðingu eiga skilið.
Ef þetta hefði nú verið í matreiðsluþætti hefði kannski mátt flokka þetta undir smá glóru.
Hvernig þetta á að teljast til sjálfbærnináms Hallormsstaðarskóla er með öllu óskiljanlegt.
Rjúpan stendur mjög höllum fæti í ár. Á 26 af 32 talningarsvæðum þar sem Náttúrufræðistofnun Íslands framkvæmdi talningu nú í sumar dróst stofnstærð saman um allt að 70% frá í fyrra. Aðeins á sex svæðum styrktist stofninn lítillega. Í raun hefði átt að banna veiðar í ár eða í það minnsta takmarka þær við ákveðin fá landsvæði. Í stað þess er fjöldi veiðidaga stóraukinn undir þrýstingi veiðimanna.
Í raun virðist tilfinning fréttastjórnar RÚV fyrir dýravelferð, náttúru og umhverfi vera takmörkuð og fréttir ykkar manna á Austurlandi oft vafasamar í þessu tilliti.
15. september sl. voruð þið með frétt, líka í kvöldfréttum, sem líka var kennd við sjálfbærninám í Hallormsstaðarskóla, þó að þetta „nám“ hafi gengið út á og sýnt dráp á gæsum með haglabyssu, og voru fuglarnir ekki kallaðir gæsir heldur „hráefni“. Þessi frétt var líka frá Rúnari Snæ. Góður smásagnahöfundur, er sagt, en tilfinningalítill fyrir dýrunum og lífríkinu virðist vera.
Sýnt var hvernig skotið var á fljúgandi gæsahóp eftir að farið var að rökkva og illa sást til og sást hvar tvær eða þrjár féllu til jarðar sýnilega dauðar. „Hráefni“. Engum sögum fór af þeim fuglum sem komust undan, særðir af höglum, án þess að drepast strax, eða af dauðastríði þeirra næstu daga. Þetta þótti fréttastofu greinilega líka flott og skemmtilegt; fín frétt.
Væntanlega hugðu fréttamenn ekki mikið að því að flestar gæsategundir eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands, rjúpan reyndar líka.
Að undanförnu höfum við í Jarðarvinum verið að berjast fyrir því að lengja griðatíma hreindýrskálfa, en eins og kunnugt er hefst dráp þeirra með núverandi fyrirkomulagi þegar þeir yngstu eru rétt átta vikna. Sýndum við fram á að allt að 600 litlir hreindýrskálfar hefðu farist í íslenskum hreindýrahögum síðasta vetur, að nokkru eða verulegu leyti vegna þess að mæður þeirra voru drepnar frá þeim of snemma.
Fréttamenn RÚV birtu fréttir um það fyrir nokkru að 200 hreindýr hefðu farist á Svalbarða vegna loftslagsbreytinga, en þar lifa um 22.000 hreindýr. Fórst þannig 1%, þó að það hafi auðvitað verið nógu hörmulegt.
Hér fórust síðasta vetur um 10% allra hreindýra í landinu, en fréttamenn sáu enga ástæðu til að gefa því gaum. Flestir aðrir fjölmiðlar fjölluðu þó um málið og t.a.m. Stöð 2 mjög myndarlega.
Æskilegt væri að þú eða eftirmaður þinn færuð ofan í saumana á málefninu dýra-, náttúru- og umhverfisvernd við fréttamenn ykkar og að ráðherra hefði þennan mikilvæga framtíðarþátt líka í huga við skipan eftirmanns þíns. Því fær hún afrit.
Ég vona að við getum öll verið sammála um að virðing fyrir lífríki jarðar og vernd þess og varðveisla sé líka menning – af því að hún er ykkur báðum mjög hugleikin – ef þessi vernd og varðveisla er ekki einn helsti inntakspunktur hennar.