Opið bréf til sótt­varna­ráðs

Sam­kvæmt 6. gr. laga nr. 19/1997 um sótt­varnir er það hlut­verk sótt­varna­ráðs að móta stefnu í sótt­vörnum og skal ráðið vera heil­brigðis­yfir­völdum til ráð­gjafar um að­gerðir til varnar út­breiðslu smit­sjúk­dóma. Með þessu bréfi viljum við kalla eftir því að ráðið taki af­stöðu til á­lita­mála sem upp hafa komið um að­gerðir gegn CO­VID-19 far­aldrinum.

Yfir­lýst stefna hefur verið að hægja á far­aldrinum en stöðva hann ekki

Sótt­varna­læknir sagði á upp­lýsinga­fundi 28. mars sl. að hann hafi starfað í sam­ræmi við þá stefnu sem ráðið hafi sam­þykkt á fundi 14. febrúar sl. varðandi CO­VID-19 far­aldurinn.

Yfir­lýst stefna yfir­valda eins og hún kemur fram hjá sótt­varna­lækni er að beita að­gerðum til að hægja á far­aldrinum, en ekki stöðva hann. Sam­kvæmt því er mark­miðið að hlífa við­kvæmum hópum við smiti á meðan ó­næmi byggist upp hjá lands­mönnum. Þegar til­skilið hlut­fall lands­manna hefur smitast væri hjarðó­næmi náð og far­aldurinn mundi fjara út. Þar til slíkum punkti er náð þarf að við­halda að­gerðum til að hægja á út­breiðslu: Skimað er fyrir smitum, sótt­kví beitt þar sem grunur er um hugsan­legt smit, fjölda­tak­markanir eru settar á sam­komur og nándar­tak­markanir milli fólks.

Sótt­varna­læknir lýsti að­ferðinni þannig í Silfri RÚV 15. mars: „Við verðum eigin­lega að fá eitt­hvað smit í sam­fé­lagið, því þetta er svona eins og bólu­setning. Þannig að við getum reiknað það út að við þurfum kannski eins og 60% af þjóðinni til að smitast til að búa til ó­næmi svo við fáum þetta svo­kallaða hjarðó­næmi, þannig að veiran muni ekki þrífast á­fram.“

Sótt­varna­læknir hefur einnig sagt að ekki sé rétt að stöðva far­aldurinn með hörðum að­gerðum, því þá komi hann aftur seinna þegar að­gerðum er af­létt. Ekki er víst að allir séu sam­mála því. Ef far­aldurinn væri stöðvaður núna værum við væntan­lega í betri stöðu til að takast á við hann ef hann kæmi upp aftur. Tími sem vinnst nýtist til að hægt sé að rann­saka þennan sjúk­dóm betur, þróa veiru­lyf og jafn­vel bólu­efni. Allt gæti það nýst til að bjarga heilsu og lífi margra þótt far­aldurinn komi seinna.

Er það enn stefna ís­lenskra yfir­valda að hægja á far­aldrinum þangað til hjarðó­næmi byggist upp? Eða verður núna mörkuð ný og skýr stefna um að kveða far­aldurinn niður þannig að að­eins lítill hluti lands­manna smitist?

Er­lendir ferða­menn frá hættu­svæðum fara um landið

Hér hefði verið mögu­legt að draga enn frekar úr hættu á því að CO­VID-19 bærist inn í sam­fé­lagið en gert var. Ís­lendingar sem komu frá skil­greindum hættu­svæðum voru settir í sótt­kví og vel að því staðið. En ekki var reynt að hindra að er­lendir ferða­menn frá hættu­svæðum færu um landið, þótt ljóst væri að þeir gætu smitað lands­menn og aðra ferða­menn af CO­VID-19. Þegar flest ríki heims höfðu á­kveðið að loka á ferða­menn frá hættu­svæðum, var þessari smit­leið enn haldið opinni hér.

Smitaðir eru í „ein­angrun“ með ó­smituðum

Nú eru 935 ein­staklingar í ein­angrun í heima­húsi. Þeim er heimilt að búa þar á­samt ó­smituðu heimilis­fólki sem er þá alltaf í nokkurri smit­hættu, þótt var­lega sé farið. Í Suður-Kóreu og öðrum ríkjum hefur þessari smit­leið verið lokað með því að vista smitaða ein­stak­linga á gisti­heimilum eða hótelum. Hér er ekki skortur á slíkri að­stöðu. Kemur til greina að gera það að al­mennri reglu að smitaðir í ein­angrun séu vistaðir utan heimilis í til­fellum þar sem slíku verður við komið?

Grunn­skólar eru opin smit­leið

Í nær öllum ná­granna­ríkjum okkar hefur grunn­skólum verið lokað, enda viður­kennt að þótt börn fái í flestum til­fellum væg ein­kenni CO­VID-19 sjúk­dómsins þá geta þau engu að síður smitað aðra og borið smit á milli. Í bréfi sótt­varna­læknis og land­læknis til skóla­stjórn­enda, kennara og for­eldra þann 24. mars segir: „Að mati sótt­varna­læknis eru líkur á smiti frá ungum börnum tölu­vert ó­lík­legra en frá full­orðnum .... Því má leiða líkum að því að ekki er til­efni til þess að tak­marka skóla­starf frekar í sótt­varnar­skyni“.

Ýmsir er­lendir sér­fræðingar (sjá t.d. hér, hér, og hér) eru ó­sam­mála sótt­varna­lækni og telja mikil­vægt að loka skólum. Fyrir hendi eru á­ætlanir um að börn frá heimilum lykil­starfs­manna gætu á­fram sótt skóla þótt al­mennu skóla­haldi væri af­lýst. Mun sótt­varna­ráð skoða hvort sá kostur gæti nýst betur í bar­áttunni gegn veirunni en nú­verandi fyrir­komu­lag?

Beiðni lækna um sótt­varna­ráð­stöfun hafnað

Heilsu­gæslu­læknar á norð­austur­horni landsins óskuðu eftir því að fá að stöðva um­ferð inn á af­markað svæði til að verjast smiti. Vöru­flutningar yrðu eftir skil­yrðum og þeir sem kæmu inn á svæðið færu í tveggja vikna sótt­kví. Á svæðinu búa margir sjúk­lingar í á­hættu­hóp og langt í alla að­stoð. Sótt­varna­læknir hafnaði beiðni læknanna með þeim rökum að slík lokun „myndi að­eins fresta vandanum“. Telur sótt­varna­ráð að það gæti svarað kostnaði að fresta komu far­sóttarinnar í þetta sam­fé­lag á norð­austur­horninu? Ef sú stefna væri mörkuð að kveða niður veiruna, gæti slíkt tekist án þess að far­aldurinn þyrfti nokkurn tíma að ganga yfir þennan lands­hluta?

Hve­nær verður far­aldurinn genginn yfir?

Imperial College hefur á­ætlað að far­aldurinn gangi yfir á fjórum mánuðum sé ekkert gert til að hægja á honum. Með að­gerðum sé hægt að hægja á út­breiðslunni („mitigation“) þannig að spítalar hafi undan og mann­fall verði minna, en þá má hins vegar reikna með að út­breiðslan standi í ár eða lengur. Í allan þann tíma mun þurfa að­gerðir til að hægja á út­breiðslunni.

Önnur að­ferð felur í sér að stöðva út­breiðslu far­aldursins („s­upp­ression“) með tveggja mánaða á­taki. Þessi leið krefst þess að smit­leiðum verði lokað og sam­fé­lagsmit fundin og ein­angruð. Að því loknu er hægt að af­létta að­gerðum svo mann­líf og efna­hags­líf landsins geti byrjað að þrífast eðli­lega. Við­halda þarf þó stöðugri ár­vekni þar til lyf eða bólu­efni finnast.

Er raun­hæft að gera ráð fyrir því að far­aldurinn hætti um miðjan apríl?

Sótt­varna­læknir virðist hafa fylgt mitigation stefnu, sem Imperial College ofl. telja að taki eitt ár hið minnsta í fram­kvæmd. Því skýtur skökku við að spá­líkan Co­vid teymisins sýnir að far­aldrinum ljúki hér upp úr miðjum apríl. Eftir það hætti ný til­felli að greinast. Þær á­ætlanir munu tæp­lega ganga eftir nema tekin verði nú þegar upp „s­upp­ression“ stefna.

Til að þetta mark­mið náist þarf að loka þeim smit­leiðum sem enn eru opnar. Ekki er vitað ná­kvæm­lega hve margir eru smitaðir í sam­fé­laginu, en skimanir Ís­lenskrar Erfða­greiningar meðal ein­kenna­lausra, gefa vís­bendingu um að allt að 1% lands­manna gætu verið smitaðir. Sá hópur veit ekki að hann er smitandi og hættan á að smit berist til við­kvæmra er því mikil. Gera þarf átak til að finna alla smitaða og ein­angra. Fyrr verður vart hægt að af­létta að­gerðum.

Stefna Asíu­þjóða hefur skilað árangri

Vera kann, að þegar þessi stefna varð fyrir valinu hjá Evrópu­þjóðum hafi ekki verið talið mögu­legt að stöðva út­breiðslu far­aldursins. Nú hafa Kína og fleiri ríki í Asíu hafa sýnt að það er mögu­legt. Þrátt fyrir afar erfiða byrjun í Kína, tókst að stöðva far­aldurinn og forða um 1,3 milljörðum Kín­verja frá smiti. Í dag greinast þar færri ný­smit en í okkar fá­menna landi. Lönd eins og S-Kórea, Taí­van og Singa­púr hafa öll náð eftir­tektar­verðum árangri í bar­áttunni við að stöðva CO­VID-19 far­aldurinn. Í þessum löndum er mann­líf og at­vinnu­líf óðum að rétta úr kútnum. Smit koma upp öðru hvoru en þau eru rakin með hraði og út­breiðsla stöðvuð jafn óðum. Heil­brigðis­kerfi þessara landa er ekki lengur undir­lagt af deyjandi CO­VID-19 sjúk­lingum.

Á sama tíma og Asíu­ríkin hafa nánast stöðvað far­aldurinn, hefur CO­VID-19 stefna Vestur­landa leitt þau mörg í for­dæma­lausar ó­göngur. Far­aldurinn lætur illa að stjórn: heil­brigðis­kerfin sligast, mann­fall og heilsu­tjón fer langt fram úr svörtustu spám. At­vinnu­líf og mann­líf er lamað að miklu leyti, milli­landa­flug hefur lagst af og landa­mærum verið lokað. Vart sér fyrir endann á á­standinu. Í Bret­landi, Noregi, Þýska­landi og víðar telja sér­fræðingar að á­standið gæti að ó­breyttu varað langt fram á næsta ár.

Getum við lært af Asíu­ríkjum og Fær­eyingum?

Þann 12. mars var gripið til að­gerða í Fær­eyjum til að stöðva far­aldurinn. Allir sem koma til Fær­eyja fara í tveggja vikna sótt­kví, ekki bara heima­menn. Ein­staklingar í ein­angrun eru ekki hafðir undir sama þaki og ó­smitaðir. Fær­eyingar hafa tekið tvö­falt fleiri sýni en við, miðað við höfða­tölu. Í Fær­eyjum hefur greindum smitum fækkað dag frá degi og þeir virðast á góðri leið með að stöðva far­aldurinn.

Við gætum einnig lært mikið af því hvernig Suður-Kórea, Singa­púr, Kína og fleiri Asíu­ríki hafa fengist við CO­VID-19. Þessi lönd stefndu aldrei á hjarðó­næmi, þau töldu aldrei þarft „að fá eitt­hvað smit út í sam­fé­lagið“. Frá upp­hafi var þeirra stefna skýr: Að stöðva út­breiðslu CO­VID-19, og það hefur þeim tekist. Veiran hefur þar verið nær upp­rætt úr um­hverfinu og mann­líf og at­hafna­líf í þessum löndum er byrjað að rétta úr kútnum. Þarna hafa stjórn­völd einnig mælt með því að al­menningur noti maska til að verja sig og aðra smiti. Sú að­gerð hefur náð aukinni út­breiðslu í Evrópu á síðustu dögum og kemur vonandi einnig til skoðunar hér.

Hvaða stefnu hyggst sótt­varna­ráð taka?

Stefna ráðsins og ráð­gjöf til heil­brigðis­ráð­herra varðandi CO­VID-19 þarf að vera skýrt fram sett og henni þurfa að fylgja þau rök og for­sendur sem ráðið byggir á. Hvort telur ráðið væn­legra að stöðva far­aldurinn eða hægja á honum? Hverjir eru kostir og gallar helstu leiða? Hvað má ætla að að­gerðir þurfi að standa lengi? Hvers virði væri að geta komið at­vinnu­lífinu af stað fyrr, eins og tekist hefur í Singa­púr og víðar? Hve lengi þolir heil­brigðis­kerfið að vera undir nú­verandi á­lagi? Hver eru á­ætluð á­hrif hvorrar leiðar á lýð­heilsu, mann­líf og efna­hag í landinu?

Hvert er það hlut­fall lands­manna sem þyrfti að sýkjast til að hér myndist hjarðó­næmi? Hvað eru það margir ein­staklingar? Hve langan tíma mun taka að ná hjarðó­næmi, ef hægt er á far­aldrinum að því marki að heil­brigðis­kerfið geti annað á­laginu á öllum tímum?

Getur sótt­varna­ráð bent á traustar heimildir sem sýna að þeir sem læknast hafa af CO­VID-19 myndi lang­tíma­ó­næmi gegn frekari sýkingum? Er vissa fyrir því að það komi síðari bylgja af CO­VID-19? Hve­nær má þá reikna með henni?

Hvað er á­ætlað að margir muni deyja af völdum CO­VID-19 áður en hjarðó­næmi er náð? Hve margir munu hljóta varan­legt heilsu­tjón (og hér) af völdum CO­VID-19? Hafa eftir­köst CO­VID-19 sjúk­dómsins hjá þeim sem veikjast illa og þeim sem veikjast lítið verið rann­sökuð? Hvernig er hægt að rétt­læta stefnu sem felur í sér mann­fall og heilsu­tjón ef til er önnur stefna sem getur forðað því?

Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin hefur skorað á stjórn­völd allra landa að stöðva far­aldurinn með mark­vissum að­gerðum í stað þess að hægja á honum. Hyggst sótt­varna­ráð verða við þeirri á­skorun? Þess má geta að vísinda­menn í Bret­landi og Sví­þjóð hafa skorað á sín stjórn­völd að láta af á­formum um hjarðó­næmi, en stöðva þess í stað far­aldurinn með öllum ráðum.

Margt hefur breyst á þeim eina og hálfa mánuði síðan ráðið kom saman síðast og margt af því gæti þurft að taka til greina við mótun nýrrar stefnu. Það er ein­læg von okkar að efni þessa bréfs geti orðið að gagni og óskum ráðinu, sótt­varna­lækni og öllum lands­mönnum góðs gengis í bar­áttunni við CO­VID-19 far­aldurinn.

Virðingar­fyllst,

Frosti Sigur­jóns­son og Ó­lína Kjer­úlf Þor­varðar­dóttir