Önnur U-beygja hjá Samfylkingunni? – Helga Vala vill ekki takmarkanir

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að stíga þurfi næsta skref til að lifa með Covid-19, til þess séu hraðpróf besta lausnin. „Við þurfum að stíga næsta skref til að lifa með veirunni. Hraðprófin eru ýmist afhent án endurgjalds á ýmsum stöðum, send heim til almennings eða seld á lágmarksverði þannig að enginn þarf að neita sér um slíka notkun,“ segir hún í grein sem hún birtir í dag.

„Sóttvarnarlæknir lýsti því yfir á dögunum að hraðpróf kæmi ekki í staðinn fyrir sóttkví, enda gerir enginn ráð fyrir því, en gæti komið í veg fyrir hópsmit ef einhver greinist í hraðprófi sem ella mætti til skóla eða vinnu. Hraðprófin geta hjálpað okkur að ná því sem næst eðlilegu lífi til að koma í veg fyrir langvarandi afleiðingar þeirra takmarkana sem við höfum búið við frá því í mars 2020.“

Jón Haukur Baldvinsson, kokkur og mágur Bjarna Benediktssonar, rifjar það upp á Twitter að aðeins nokkrir dagar séu síðan Helga Vala hafi talið að herða þurfi aðgerðir innanlands: „Stjórnvöld þurfa auðvitað að meta það hvort þau ætla að vera í einhverri stemningu eða verja almenning,“ sagði hún.

Ef það er rétt hjá Jóni Hauk að Helga Vala sé að taka U-beygju í þessu máli er það í annað skiptið á stuttum tíma sem flokkurinn breytir um stefnu en nýverið tók Samfylkingin U-beygju í húsnæðismálum.