Í þættinum Fasteignir og heimili á dögunum heimsótti Sjöfn Þórðar, Hrefnu Rósu Sætran matreiðslumeistara, rithöfund matreiðslubóka og sjónvarpskokk með meiru í garðinn hennar í Skerjafirðinum. Í tilefni þess grillaði Hrefna Rósa nokkra af sínum uppáhalds smáréttum. Þeir brögðuðust ómótstæðilega vel og ótrúlega ljúft og einfalt að grilla þessa sælkerarétti sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Sjöfn fékk Hrefnu Rósu til að gefa okkur uppskriftirnar að þessum sælkeraréttum sem vert er að prófa og njóta í sumar.
Þegar Sjöfn mætti til Hrefnu Rósu var allt komið á fullt í eldhúsinu og Hrefna Rósa í sínu bezta grillstuði í bongóblíðu. „Það er svo gaman að grilla alls konar og reyna vera sem mest úti en ekki inni í eldhúsi þegar sólin skín og veðrið er gott. Hér eru nokkrar einfaldar uppskriftir sem höfða til bragðlauka flestra,“ segir Hrefna Rósa með bros á vör.
Kjúklingalundir á spjóti
1 bakki kjúklingalundir
6 msk. Caj P grillolía með hvítlauksbragði
2 msk. sesam olía
Aðferð:
Þerrið kjúkinginn á pappír. Hellið grillolíunni og sesamolíunni í skál. Marinerið lundirnar í 20 mínútur. Þræðið á spjót og grillið í 3 mínútur á hvorri hlið á vel heitu grilli.
Risarækjur
2 rif hvítlakur, fínt saxaður
4 msk. olía
2 msk .maukað chili
Aðferð:
Þerrið rækjurnar vel á pappír. Setjið rækjurnar í skál með hvítlauknum, olíunni og chili-inu. Marinerið í 10-15 mínútur. Má marinera lengur. Grillið svo á rjúkandi heitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið.
Fyllt súkíní með halloumi ost og parmaskinku
1 stk. súkíní
1 stk. halloumi ostur (má nota fetaost)
8 sneiðar parmaskinka
Aðferð:
Skerið súkíníið í þunnar sneiðar. Ég nota mandolín en það er hægt að nota ostaskera, áleggshníf eða bara hníf sé maður ofboðslega fær að skera þunnt. Leggið svo tvær sneiðar af kúrbít í kross, setjið eina sneið af parmaskinu í miðjuna, setjið svo bita af ost þar ofan á og pakkið svo inn með því að leggja skinkuna yfir ostinn og svo súkíníið yfir skinkuna. Penslið með olíu og grillið í 2 mínútur á hvorri hlið.
Grillaðir ávextir með geitaosti og hunangi
*Hér má nota allskonar ávexti en ég ákvað að nota plómur, ferskjur og fíkjur.
Plómur, ferskjur og fíkjur skornar í helminga. Penslið með olíu og grillið þar til fallegar grillrendur myndast. Skerið svo baquette brauð í þunnar sneiðar og grillið í örskamma stund. Setjið ávextina á disk og myljið geitaost yfir. Hellið svo hunangi yfir og setjið nokkrar valhnetur líka með.
Verði ykkur að góðu.
Innslagið má finna í heild sinni hér: