Ómótstæðilega ljúffengur humar í hvítlaukssmjöri með steinselju

Þegar það á að gera vel við sína eða þegar það er hátíð á bæ er humar æði oft efstur á óskalistanum. Íslenski humarinn er sá besti í heimi að mínu mati og klikkar aldrei. Ég vel ávallt fyrsta flokks humar þegar ætlunin er að bera hann fram í skelinni. Fyrsta flokks humar fæst ávallt hjá Fiskikónginum. Humarinn er bæði fallegur fyrir augað og bragðið er himneskt í orðsins fyllstu merkingu. Undirbúningurinn tekur stutta stund og eldunnartíminn er stuttur. Það þarf ekki mikið meðlæti með þessum hátíðarmat.

Hátíðarhumar að hætti Sjafnar

Fyrir fjóra

1 kg humar í skel
150 g íslenskt smjör
2 msk. fersk steinselja, söxuð
4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir


Byrjið á því að klippa skelina. Hrærið saman smjöri, hvítlauk og steinselju og búið til úr því hvítlaukssmjör. Sumir bræða smjörið og setja hvítlaukinn og steinseljuna úti og hella yfir humarinn þegar búið er að klippa hann og stilla honum upp á ofnplötu en ég maka hvítlaukssmjörinu á humarinn og læt það bráðna yfir hann í ofninum.

Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Humarinn þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn er klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið, hann á samt að hanga fastur á halaendanum. Hvítlaukssmjörinu er makað á humarinn eftir að búið er að klippa alla humarhalana og snyrta. Humrinum er raðað í eldfast mót eða djúpa ofnplötu. Ef ekki á að elda humarinn strax þá er sett plastfilma yfir og hann geymdur á köldum stað. Áður enn humarinn er settur í ofninn er mikilvægt að hita ofninn í 225° gráðu hita. Humarinn er síðan grillaður í ofni við 225° gráður í um það bil 4 til 5 mínútur. Fylgist vel með humrinum og þegar hann er byrjaður að taka á sig lit og kjötið er orðið hvítt er mál til komið að taka hann út.

Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í ofnplötuna sem hellt er yfir humarinn þegar hann er borinn fram. Humarinn er borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Ég skreyti gjarnan diskinn með steinselju og sítrónusneið.