Hrekkjavakan er framundan og hér kemur skemmtileg útfærsla af draugaköku úr smiðju Berglindar Hreiðars köku- og matarbloggara með meiru sem heldur úti síðunni Gotterí og gersemar sem allir ættu að geta gert. Hér nýtir hún djölfatertubotn sem er silkimjúkur og áferðin ómótstæðileg og gerir kökuna syndsamlega góða.
Draugakaka að hætti Berglindar
Kökubotnar
1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
3 egg
125 ml Isio4 matarolía
250 ml vatn
3 msk. bökunarkakó
1 pk. Royal súkkulaðibúðingur
- Hitið ofninn í 160°C og spreyið 3 x 15 cm kökuform vel að innan með matarolíuspreyi.
- Blandið saman eggjum, vatni og olíu og setjið því næst kökuduftið og bökunarkakóið saman við. Hrærið í um 2 mínútur og skafið niður á milli.
- Bætið í lokin búðingsduftinu saman við og hrærið stutta stund áfram.
- Skiptið niður í formin og bakið í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
- Kælið botnana og skerið aðeins ofan af þeim til að jafna þá.
Krem
3 x dós af Betty Crocker Vanilla Frosting
300 g flórsykur
Appelsínugulur og svartur matarlitur
- Hrærið saman kremi og flórsykri þar til það verður slétt og fínt, skafið niður á milli.
- Setjið vel af appelsínugulum matarlit saman við og skafið aftur niður á milli.
- Smyrjið næst um 1 cm þykku lagi af kremi á milli botnanna og hjúpið alla kökuna með þunnu lagi af kremi, setjið í kæli í um 15 mínútur.
- Hrærið þá upp í kreminu og setjið annað lag yfir hana alla og sléttið úr með kökuspaða eins og unnt er.
- Setjið svartan matarlit í litla skál og finnið til lítinn pensil. Frussið því næst matarlit á kökuna eins og þið viljið. Best er að gera þetta úti þar sem matarlitur á það til að frussast í allar áttir!
Appelsínuguli liturinn fer einstaklega vel með litlu draugunum sem sjá um að skreyta kökuna með skemmtilegum hætti./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.
Draugar
2 eggjahvítur
170 g sykur
30 ml vatn
½ tsk. Cream of tartar
Lakkrískurl
- Pískið saman eggjahvítur, sykur, vatn og Cream of tartar í skál.
- Setjið skálina yfir pott með sjóðandi vatni og hrærið í þar til þið finnið að sykurinn er orðinn uppleystur og blandan orðin volg, færið hana þá yfir í hrærivélarskálina (eða þeytið með handþeytara).
- Þeytið á hæsta hraða þar til stífir toppar myndast (um 10-12 mínútur í hrærivél).
- Setjið í stóran sprautupoka með hringlaga stút sem er um 2 cm í þvermál. Sprautið drauga á topp kökunnar og stingið jafnóðum lakkrísaugum í hvern draug, gott að nota litla töng (flísatöng).
Berið fram á frumlega og draugalegan hátt og njótið hvers bita.