Þegar það er vetrarlegt úti og snjórinn fegrar umhverfið er yndislegur tími til að laga ljúffenga súpu sem hlýjar og kitlar bragðlaukana. Þessi súpa er ein af þeim sem ávallt hittir í mark og er gjarnan elduð þegar von er á mörgum veislugestum.
Himneskt bragð hennar kitlar bragðlaukana og gerir hana ómótstæðilega. Ilmurinn er svo sannarlega lokkandi. Hægt er að leika sér með meðlætið og bera hana fram á margvíslegan hátt. Einnig er hægt að sleppa kjúklingnum og öllum dýraafurðum og gera hana vegan, þá bæti ég við meiri kókosmjólk og niðursoðnum tómötum ásamt grænmetis súputeningum í sömu hlutföllum og því sem tekið er út.
Eðalkjúklingasúpa lífsins
Fyrir 6
800 g kjúklingalundir eða 4 stk kjúklingabringur
Krydd lífsins frá Pottagöldrum, kryddið eftir smekk
Ólífuolía til steikingar
Hitið pönnu á hellu á aðeins meira enn miðlungs hita og setjið olífuolíu á. Kjúklingalundir/bringur eru skornar í bita, snöggsteiktar með kjúklingakryddi Lífsins og pipar. Kjúklingabitarnir eru settir til hliðar meðan súpan er löguð.
1 púrrulaukur
2 vorlaukar
2 grænar paprikur
2 rauðar paprikur
1 orange paprika
6 hvítlauksrif
Olífuolía til steikingar
Byrjið á því að setja pott á hellu stillta á miðlungs hita. Allt grænmetið er saxað og brytjað smátt, sett í pott og látið krauma í olífuolíunni nokkrar mínútur eða þar til græmetið verður mjúkt.
Bætið eftirfarandi hráefni út í pottinn með grænmetinu:
400 g rjómaostur
2 stórir grænmetis súputeningar (leysa upp í soðnu vatni, setja örlítið vatn í lítið mál)
2 stórir kjúklinga súputeningar (leysa upp í soðnu vatni, setja örlítið vatn í lítið mál)
1 peli rjómi eða matreiðslurjómi
1.4 lítrar vatn
4 dl kókosmjólk
1 flaska Heinz chillisósa í litlu glerflöskunni
2 tsk. karrý
2 tsk. paprikuduft
Krydd lífsins, salt og grófur pipar eftir smekk
1 dós/krukka niðursoðnir tómatar
Þegar allt eftirfarandi hráefni er komið út í pottinn er hrært reglulega í pottinum á miðlungs heitri hellu þar til suðan kemur upp. Léttsteiktu kjúklingabitarnir settir út í þegar suðan er búin að koma upp og látnir malla í dágóða stund.
Ég framreiði Eðalkjúklingasúpuna með ítölsku, heimabökuðu súrdeigsbrauði, svörtu Doritos snakki, rifnum osti, söxuðu kóriander og sýrðum rjóma. Þetta er ómótstæðilega ljúffengt saman. Njótið og verði ykkur að góðu!