Ómótstæðileg grilluð T-bone steik með auðveldustu bernaise sósu í heimi

Hver elskar ekki að fá góða steik á grillið þegar sólin skín? Það má með sanni segja að grillsumarið sé hafið og ilmurinn af grilluðum sælkeramat svífi í loftinu. Hér er ein uppskrift af ómótstæðilega ljúffengri T-bone steik að hætti Maríu Gomez sem er einstaklega hæfileikarík í eldhúsinu og þekkt fyrir lífssstíls- og matarbloggið sitt á síðunni Paz.is

„Mér finnst krydd og marinering ekki skipta síður máli en steikin sjálf. Það þarf ekki að kosta til ógrynni af kryddum til að gera góða marineringu, góð olía og fersk hráefni er eitthvað sem ég elska í marineringu,“segir María og búin að taka út grillið og byrjuð að njóta grillsumarsins í botn. Gott meðlæti og góð sósa toppar góða grillmáltíð og við fengum Maríu til að gefa okkur uppskrift af því meðlæti sem henni finnst best með T-bone steikinni. „Ég elska bernaise sósu og hún passar mjög vel með þessari steik. Ég gef ykkur því uppskrift af fáranlega auðveldri bernaise sem er samt súper góð. Sósuna geri ég í blandara, hér þarf engan pott né fleiri áhöld, bara blandara þar sem allt fer ofan í og úr verður dásamleg silkimjúk bernaise sósa.“ Maríu finnst jafnframt grilluð kartafla með og maís er tilvalið meðlæti með þessari grillmáltíð og leggur áherslu á að vera ekki með of mikið meðlæti heldur vanda valið svo brögðin njóti sín sem best.

„Hér nota ég góða væna T-bone steik, en það má vel nota aðra tegund af nautakjöti í þessa marineringu, gott er að leyfa kjötinu að marinerast minnst í 1 klukkustund, því lengur því betra.“

M&H T-Bone steik 2 MG.jpg

Mareneruð T-bone steik

Hráefni í marinerninguna

1 dl Cai P hvítlauksolía

1,5 dl extra virgin ólífuolía

6 marinn hvítlauksrif

3 greinar ferskt rósmarín

2 tsk. gróft salt

1-2 vænar T-bone steikur (1 steik passar fyrir 2)

M&H T-Bone Steik 4 MG.jpg

Bernaise sósa sú auðveldasta í heimi

4 stk. eggjarauður

230 g bráðið smjör

1 tsk. hvítlaukssalt (garlic salt)

1 tsk. Oscar nautakraftur í dufti eða 1/2 nautakrafts teningur

1 msk. laukduft (onion powder)

klípa af grófu salti

1/4 tsk. svartur pipar

4 tsk. estragon

1 tsk. sykur

1 tsk. Bernaise Essence (fæst í Bónus en má sleppa)

2 tsk. sítrónusafi (3 tsk. ef þið sleppið Bernaise Essence)

M&H T-Bone Steik 6 MG.jpg

Marinernig

  1. Merjið hvítlaukinn í pressu.
  2. Klippið niður rósmarín greinarnar niður í minni nálar eða eins og er á þurrkuðu rósmarín (takið bara nálarnar ekki greinina sjálfa).
  3. Hrærið saman Caj P olíunni og Extra Virgin olíunni í góðu eldföstu móti sem passar undir steikina.
  4. Saltið og setjið hvítlaukinn og rósmarín út í og hrærið vel saman.
  5. Setjið nú kjötið út í marineringuna og þekjið það vel með henni.
  6. Leyfið að standa í henni í minnst eina klst, því lengur því betra.
  7. Kveikjið svo á grillinu á hæsta hita og lækkið niður þegar það er vel heitt niður í miðlungshita.
  8. Grillið í 5 mín á hvorri hlið og takið tímann.
  9. Setjið svo steikina á matardisk og setjið álpappír vel yfir og látið standa þar undir í 10 mínútur (takið tímann). Þannig náið þið medium rare steik.
M&H T-bone steik 5 MG.jpg

Bernaise sósa gerð í blandara

  1. Setjið eggjarauður, sykur, sítrónusafa, bernaise essence og öll krydd nema nautakraft og estragon saman í blandara.
  2. Blandið í minnst eina mínútu eða þar til rauðurnar eru orðnar þykkar, ljósar og léttar
  3. Bræðið saman smjör og nautakraft í örbylgju ofn.
  4. Hellið svo smjörinu í mjórri bunu smátt og smátt út í eggjarauðurnar í blandaranum meðan hann er í gangi. Hellið sem sagt gegnum gatið á lokinu.
  5. Setjið svo estragonið út í að lokum og haldið áfram að blanda í blandaranum þar til sósan er orðin þykk og loftkennd.
  6. Látið hana svo standa í eins og 5 mínútur en þá þykknar hún.
  7. Berið fram með kjötinu og því meðlæti sem þið kjósið með steikinni.
M&H T-bone steik 3 MG.jpg

Maríu finnst allra best að vera með grillaða kartöflu og maís sem meðlæti að ógleymdri heimsins bestu og auðveldustu bernaise sósunni./Myndir María Gomez.

Gleðilegt grillsumar.