Mynd: Þáttastjórnendur Ísland vaknar á K100 / K100
Færsla sem vakti mikla athygli var til umræðu í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 í morgun. Ómar R. Valdimarsson birti færslu með mynd af nærfatamódelum. Fyrir ofan myndirnar skrifaði hann: „Á 20 árum hefur tekist það að normalisera það sem er að vera fitubolla nútíminn er trunta.“
Kristín Sif hefur þáttinn á rólegu nótunum og spyr strákana hvort að heilsan sé ekki mikilvæg. Eru þau öll sammála um það.
„Hvað er það í ykkar huga að vera heilbrigður? Heilbrigð sál í hraustum líkama?“ Spurði Kristín.
„Já, já bara borða heilbrigðan mat og hreyfa sig nægilega mikið og stunda gott líferni,“ sagði Jón Axel þá.
„Já það hefur bæði verið umræða um jákvæða líkamsvirðingu sem hún Erna hjá Ernulandi, hún hefur talað um það en sko svo fer sú umræða oft inn á svolítið hættulega braut,“ segir Kristín og heldur áfram:
„Því að það er gott og blessað að hafa góða og mikla virðingu fyrir sjálfum sér, líða vel í eigin skinni og það er eiginlega alveg sama hvernig þú lítur út. En það að vera í mikilli ofþyngd er náttúrulega óheilbrigt. Þú getur fengið sykursýki, hjarta og æðasjúkdóma. Ég held að það sem statusinn sem þú settir inn Ómar bendir á það að við erum komin á ansi hættulega braut í þessari umræðu ekki satt?“ Spurði Kristín Ómar viðmælanda þáttarins og höfund færslunnar.
„Jú mér finnst það, það má ekki gleyma því að það hafa allir rétt á því að vera í þeim holdum sem þeir sjálfir kjósa. Þetta hefur ekkert með útlit að gera heldur bara heilsu og það er staðreynd að þeir sem að eru í mikilli ofþyngd, þeir eru líklegri til þess að fá sjúkdóma á borð við kransæðasjúkdóma, sykursýki, of háan blóðþrýsting, röskun á blóðfitu, mæði, heilablóðfall jafnvel og allskonar aðra sjúkdóma eins og gallblöðrusjúkdóma, svefntruflanir og svo ekki sé talað um aðra hluti sem að hafa að gera með stoðkerfið. Ef þú ert í of mikilli þyngd, þá dugar stoðkerfið þér ekki ævina,“ sagði Ómar og viðurkennir að færsla hans hafi vakið ansi mikil viðbrögð fólks.
„Varst þú fitubolla?“ Spurði Jón Axel Ómar sem svarar játandi.
„Já ég var einu sinni fitubolla. Ég var 99,9 kíló þegar ég steig á vigtina í mínu þyngsta ástandi,“ sagði Ómar.
„Nei málið er að þetta virðist vera umræðuefni sem að fólk er hrætt við að tala um. Þannig að þú setur status á Facebook sem er mynd frá árinu 1999, Calvin Klein auglýsingaskilti sem er kona í rauðu bikiníi með six pack að labba á ströndinni og svo kemur auglýsing frá árinu 2019 þar sem er kona í mikilli ofþyngt þar á henni stendur: „I speak my truth in my #calvins.“ Er verið að normalisera það að vera óheilbrigður eða hvað ert þú að setja fram með þessu?“ Spurði Kristín.
„Það sem ég er að segja með þessu er kannski aðallega það að, sko þetta er náttúrulega mynd sem er stolin af netinu við skulum hafa það á hreinu. En hvað ég er að segja með þessu er að fólk sem að er í mikilli ofþyngd á ekki endilega að vera okkar „rolemodel“ eða þeir sem að við sækjumst í að líkjast í útliti. Ég er ekki að gagnrýna einstaklinginn eða persónuna heldur bara það að þetta eigi ekki endilega að vera þeir einstaklingar sem að við eigum að sækjast eftir því að líkjast. Það eru aðrir hlutir sem að eru eftirsóknarverðir við það að vera í betra líkamlegu formi og það er náttúrulega bara það að fólki líður betur, þú sefur betur, það eru minni líkur á því að þú fáir áunna sjúkdóma eins og sykursýki,“ svaraði Ómar.
Kristín ræðir þá um þáttastjórnandann heimsfræga James Corden sem hefur rætt mikið um fitusmánun (fat shaming) og segir að enginn í þættinum sé að ræða það.
„En hvað er hægt að gera? Við getum ekki „shame-að“ fólk í að grennast en augljóslega er þetta okkur öllum hjartans mál, við sem erum í ofþyngd að við þurfum að grennast. En að setja auglýsingaskilti upp er kannski heldur ekki að hjálpa mjög mikið?“ Velti Kristín þá fyrir sér.
„Nei eins og ég segi það á ekki að vera eftirsóknarvert að vera í ofþyngd. En það þarf náttúrulega að búa til kerfi sem að býr til rétta hvatann fyrir fólk. Það er að segja, það þarf að gera aðgengi að hollari mat aðgengilegra, minnka skatta af hollum mat, ég tala nú ekkert sérstaklega fyri því að auka skatta á aðrar matartegundir en það á ekki að vera ódýrara að éta rusl heldur en að éta hollan mat það segir sig sjálft. Og það þarf líka að veita fólki þann hvata sem að það þar. Til dæmis að hjálpa fólki að fá þá aðstoð sem það þarf, ekki bara að skrifa út þunglyndislyf fyrir fólk þegar það ert orðið of feitt til þess að geta labbað einn hring í kringum hverfið sitt sko,“ sagði Ómar.
Þá segir hann umræðuna erfiða og að ekki megi tala um þetta í samfélaginu í dag.
„En staðreyndin er sú að það þarf að tala um þetta og það er ekki í lagi að umræðan gangi eingöngu út á það að þeir sem að gagnrýna það að fólk sé að verða of feitt, ég meina Íslendingar eru feitasta fólk á Norðurlöndunum. Ég las tölur í morgun sem segja að 59,6% Íslendinga eru í offitu. Þú veist það er bara ekkert í lagi. Þetta býr til rosalegan kostnað fyrir heilbrigðiskerfið þegar fram í sækir og það þarf að tala um þetta og það þarf að tala um hvernig við getum undið ofan af þessu og hvernig við getum hjálpað fólki að komast í eðlilegt ástand í staðin fyrir að fólk sé alltaf að hoppa á milli hinna og þessara megrunarkúra sem búa til skammtímalausn og síðan kannski hleypur fólk aftur upp í spiki.“
Tekur Kristín fram að þetta snúist allt um það að fólki líði vel en að þetta hafi ekkert með útlit þeirra að gera.
„Nú vinn ég sem þjálfari og æfi mikið sjálf og á sjálfsagt eftir að fá það eitthvað í hausinn að vera að tala um þetta af því að af því að fólki finnst að þjálfarar og fólk sem er í formi eigi ekki að vera að tala um það að það sé ekki í lagi að vera í ofþyngd,“ sagði Kristín en sjálf þyngdist hún mikið þegar hún byrjaði á hormónagetnaðarvörn á sínum tíma.
„Ég fann strax að mér leið ekki vel en málið er að þetta er ekki ljótt, þetta er bara ekki hollt. Þetta er spurningin um það,“ sagði hún.
„Ég held að þetta sé aðallega það að við þurfum að búa til þennan hvata fyrir fólk til þess að ná sínu besta líkamlega ástandi sem það getur viðhaldið til langs tíma,“ sagði Ómar.