Í gær var sýndur umræðuþáttur á vegum Kveiks á RÚV sem bar heitið Umræðuhefðin og gerendur. Þátturinn var sýndur í kjölfar þeirrar umræðu sem spratt upp úr viðtali Kveiks við leikarann Þóri Sæmundsson. Viðtalið þótti of einhliða og birtist mörgum sem hálfgert drottningarviðtal þar sem Þórir lýsti þeim raunum sem hann hefur gengið í gegnum í kjölfar kynferðisbrots árið 2017.
Kveiksþátturinn með Þóri átti hins vegar að vera kveikjan að umræðunni um það hvort að menn sem gerast sekir um ósæmilega hegðun á borð við brot Þóris, svo sem kynferðisbrot eða kynferðislega áreitni, geti snúið aftur í samfélagið með einum eða öðrum hætti. Að mati aðgerðarhópsins Öfga gekk það alls ekki eftir og kepptust meðlimir hópsins um að ausa úr skálum reiði sinnar yfir nálgun Kveiks.
Ólöf Tara Harðardóttir er ein af meðlimum Öfga. Henni var boðið í umræðuþáttinn í gær ásamt nokkrum öðrum valinkunnum einstaklingum til þess að tala máli þolenda, þar sem fyrri Kveiksþátturinn þótti sýna of einhliða frá hlið gerenda.
Ólöf opnaði sig á samfélagsmiðlinum Twitter í gær, þar sem öfgar hafa farið mikinn allt frá stofnun, og greindi frá því að henni þótti hún hafa brugðist þolendum, en viðbrögðin komu henni á óvart: „Ég reyni ávalt að vera einlæg í því sem ég geri. Ég gekk út frá viðtalinu ósátt. Mér fannst ég hafa brugðist þolendum… Ég endaði svo bara á að fara gráta þegar ég opnaði miðlana mína og sá öll fallegu commentin. Takk fyrir ykkur öll,“ sagði Ólöf Tara.
Viðbrögðin við færslu hennar létu ekki á sér standa og fékk hún stuðning úr öllum áttum.
Sóley Tómasdóttir, sem einnig var gestur í þættinum, kveðst hafa reiðst yfir því að Ólöfu hafi liðið svo illa: „Elsku besta Ólöf. Þú ert bara frábær. Eg verð bara reið við tilhugsunina um að þér hafi liðið svona. Og stóðst þig ógeðslega vel!“ sagði Sóley.
Henrý nokkur sagði: „Þú varst rosalega góð þarna, þessi tilfinning sýnir bara hvað þú gefur þig alla í þetta. Vona að þú hlúir vel að þér inn á milli.“
Þá vill hún Valla Jóna gerast amma Ólafar: „Þekki þig ekkert, gæti verið amma þín. Þá væri ég stolt amma.“
Ólöf svarar Völlu og segir að alltaf megi á sig ömmum bæta.
Þá segir Þórhildur Gyða, ein meðlima Öfga: „Þú ert algjörlega frábær og ég veit ekki hvar ég væri án þín.“
Ég reyni ávalt að vera einlæg í því sem ég geri. Ég gekk út frá viðtalinu ósátt.
— Ólöf Tara (@OlofTara) November 16, 2021
Mér fannst ég hafa brugðist þolendum… Ég endaði svo bara á að fara gráta þegar ég opnaði miðlana mína og sá öll fallegu commentin❤️
Takk fyrir ykkur öll❤️😭 pic.twitter.com/Yh3m1N8sZW