Olíubílstjórar ánægðir með verkfall: „Ég er svo gamall að það er gott að fá smá frí“

Verkfall olíu­bíl­stjórar hófst í hádeginu í dag og kom fjöldi þeirra saman á bar­áttu-og upp­lýsinga­fundi Eflingar í Hörpunni sem hófst klukkan 12 í dag.

Meðal þeirra er Rögn­valdur Helga­son, olíu­bíl­stjóri hjá Skeljungi. Hann segist styðja verk­fallið og er sáttur með samninga­nefnd Eflingar. „Ég er sáttur við að fá hærri laun og ég er sáttur með Eflingu, hundrað prósent,“ segir Rögn­valdur.

„Ég er svo gamall að það er gott að fá smá frí,“ segir Rögn­valdur, en hann hefur litlar á­hyggjur á því að verk­fallið gæti dregist á langinn.

Alex Karl Davíðs­son hjá Olíu­dreifingu segir að það sé mikill sam­hugur hjá bíl­stjórunum. Hann segir að gömlu samningarnir væru orðnir úr­eltir og það sé kominn tími á nýjan og bættan samning.

„Ég vinn frekar hættu­lega vinnu. Ég er að fara upp í námur og fram­kvæmdar­svæði. Þú ert í snertingu við eitur­efni og gufur frá gas­olíu og það er ýmis­legt lagt á mann. Vinnu­á­lagið er það mikið að mér finnst rétt­lát að endur­nýja samninga og að við fáum góðan nýjan samning. Það er það sem ég vonast eftir,“ segir Alex.

Hægt er að lesa meira hér.